Hverjir eru drengirnir tólf?

Villigeltirnir, Wild Boars. Strákarnir eru allir í sama fótboltaliði og …
Villigeltirnir, Wild Boars. Strákarnir eru allir í sama fótboltaliði og fóru inn í hellinn ásamt þjálfara sínum.

Búið er að bjarga fimm drengjum úr Tham Luang-hell­in­um. Foreldrar þeirra sem hefur verið bjargað hafa ekki enn fengið að hitta þá þar sem þeir eru nú í einangrun á sjúkrahúsi. Engar upplýsingar hafa verið birtar opinberlega um hverjum drengjanna hefur verið bjargað. 

En hverjir eru drengirnir tólf sem fóru ásamt þjálfara sínum í skoðunarferð inn í hellinn fyrir rúmum tveimur vikum og urðu þar innlyksa?

BBC hefur tekið saman upplýsingar um hópinn.

Chanin Vibulrungruang, 11 ára. Gælunafn: Titan. Hóf að æfa fótbolta er hann var sjö ára.  

Panumas Sangdee, 13 ára. Gælunafn: Mig. Hann skrifaði í orðsendingu til foreldra sinna úr hellinum að hermennirnir væru að hugsa vel um hann.

Duganpet Promtep, 13 ára. Gælunafn: Dom. Fyrirliði Villigaltanna, fótboltaliðsins sem allir strákarnir tilheyra. Hann þykir mjög efnilegur og hafa nokkur taílensk fótboltalið sóst eftir að fá hann til liðs við sig.

Somepong Jaiwong, 13 ára. Gælunafn: Pong. Hann er sagður eiga sér þann draum heitastan að spila með landsliði Taílands í fótbolta.

Ein fyrsta myndin sem birt var af drengjunum eftir að …
Ein fyrsta myndin sem birt var af drengjunum eftir að þeir fundust inni í hellinum. AFP

Mongkol Booneiam, 13 ára. Gælunafn: Mark. Kennari hans hefur lýst honum sem mjög kurteisum og góðum dreng.

Nattawut Takamrong, 14 ára. Gælunafn: Tern. Hann lét skila því til foreldra sinna að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af sér inni í hellinum.

Ekarat Wongsukchan, 14 ára. Gælunafn: Bew. Hann hefur lofað móður sinni að vera duglegur að aðstoða hana í búðinni þegar honum hefur verið bjargað.

Adul Sam-on, 14 ára. Hann spilar einnig með blakliði sem naut góðs gengis á móti á Norður-Taílandi nýverið.

Prajak Sutham, 15 ára. Gælunafn: Note. Vinir hans og ættingjar segja hann fluggáfaðan og hógværan.

Pipat Pho, 15 ára. Gælunafn: Nick. Skrifaði í bréfi til foreldra sinna að hann vildi gjarnan fá grillmat þegar honum hefði verið bjargað.

Pornchai Kamluang, 16 ára. Gælunafn: Tee. Hann skrifaði í bréfi til foreldra sinna: „Ekki hafa áhyggjur, ég er mjög glaður.“

Peerapat Sompiangjai, 17 ára. Gælunafn: Night. Hann átti afmæli sama dag og hópurinn varð innlyksa í hellinum. Foreldrar hans segjast ætla að blása til afmælisveislu þegar honum hefur verið bjargað.

Þjálfarinn Ekapol Chantawong, 25 ára. Gælunafn: Ake. Hefur beðið foreldra drengjanna afsökunar. Þeir svöruðu því til að þeir kenndu honum ekki um hvernig fór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert