Heimsbyggðin öll andaði léttar er þær gleðifregnir bárust frá Norður-Taílandi í dag að síðustu drengjunum fjórum og þjálfara þeirra hefði verið bjargað úr Tham Luang-hellinum. Þjóðarleiðtogar, knattspyrnustjörnur og fleiri lýstu yfir ánægju sinni með þetta ótrúlega björgunarafrek.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti yfir ánægju sinni á Twitter og sagði hún að von, samhugur og hugrekki hefði haft betur í dag. „Bestu kveðjur um skjótan bata til ykkar hugdjörfu drengir frá vinum ykkar á Íslandi,“ tísti forsætisráðherra.
Donald Trump Bandaríkjaforseti var á meðal þeirra fyrstu sem sendu hamingjuóskir til björgunaraðila með afrekið. „Þvílíkt fallegt augnablik – allir frelsaðir, frábærlega gert!“ tísti Bandaríkjaforseti.
Theresa May, forsætisráðherra Breta, tók sér sömuleiðis tíma frá Brexit-vandræðunum þar í landi til að senda björgunaraðilum hamingjuóskir á Twitter. Hún sagðist hæstánægð með að sjá drengina lausa úr prísundinni.
Bandaríski frumkvöðullinn Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX, sagði það „frábærar fréttir“ að drengirnir væru komnir úr hellinum. Hann hafði sjálfur komið að hellismunnanum og hafði smíðað lítinn kafbát, sem hann vildi bjóða fram til þess að ferja drengina út úr hellinum. Kafbáturinn var hins vegar ekki notaður.
Mario Sepulveda, einn sílesku námuverkamannanna 33 sem voru fastir í kopar- og gullnámu þar í landi í heila 69 daga árið 2010 réð sér ekki fyrir kæti er AFP-fréttaveitan náði af honum tali.
„Ég finn fyrir mikið af tilfinningum. Hvað get ég sagt? Ég vona að þessum krökkum gangi allt í haginn,“ sagði Sepulveda við AFP, en hann hafði áður sent drengjunum myndskilaboð þar sem hann hvatti þá til dáða.
Fótboltaheimurinn gleðst yfir björgun þessara ungu fótboltamanna. Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA lýsti yfir ánægju með björgunina, en sagði þó einnig að þau skilaboð hefðu borist frá taílenskum læknum að drengirnir tólf og þjálfari þeirra væru of veikburða til þess að vera viðstaddir úrslitaleik heimsmeistaramótsins, sem fram fer í Moskvu næstu helgi, en Gianni Infantino forseti FIFA hafði boðið drengjunum að vera heiðursgestir á leiknum eftir að þeir yrðu lausir úr hellinum.
Í tilkynningu segist FIFA setja heilsufar drengjanna framar öllu og að þeim verði boðið á viðburð á vegum FIFA einhvern tímann seinna.
Enska knattspyrnuliðið Manchester United hefur lýst því yfir að það vilji bjóða drengjunum í heimsókn á Old Trafford á komandi leiktímabili og ekki bara drengjunum heldur einnig köfurunum sem komu að björgun þeirra.
Þýsku knattspyrnustjörnurnar Toni Kroos og Mezut Özil sögðu báðir einnig báðir á Twitter í dag að það væru „frábærar fréttir“ að drengirnir væru allir heilir á húfi.
Kyle Walker, leikmaður Manchester City og enska landsliðsins, segir fréttirnar „magnaðar“. Hann bætir því síðan við að hann vilji gjarnan senda drengjunum fótboltatreyjur.