Stóð vaktina við hellinn í 17 daga

Faðir eins drengjanna sem var bjargað úr hellinum í Chiang Rai-héraði á Taílandi segist hamingjusamur og þakklátur björgunarteyminu og öllum sem aðstoðuðu við að bjarga syni hans og hinum drengjunum 11 ásamt þjálfara sínum úr hellinum.

Faðirinn, Adisak Wongsukchan, sagðist í samtali við CNN mest hlakka til þess að faðma son sinn, hinn 14 ára gamla Akarat Wongsuchan, að sér.

„Mig langar að faðma hann og segja honum að ég sé glaður,“ sagði Adisak við CNN, en í myndskeiðinu hér að ofan, sem er frá AFP, er rætt við fleiri aðstandendur drengjanna sem nú eru lausir í hellinum.

Adisak Wongsuchan hefur dvalið í nágrenni við hellinn í sautján …
Adisak Wongsuchan hefur dvalið í nágrenni við hellinn í sautján daga og hlakkar til að faðma son sinn að sér. Skjáskot/Úr viðtali CNN

Adisak stóð vaktina í heila 17 daga á fjallsbrúninni umhverfis Tham Luang-hellana, þar sem sonur hans var fastur inni ásamt liðsfélögum sínum og þjálfara. Hann segist hafa haft áhyggjur af því hvernig hann gæti lifað af, hvernig hann gæti þraukað í myrkrinu og hvað hann gæti borðað og drukkið.

Í nærri þrjár vikur gerði hann allt sem hann gat til þess að aðstoða björgunarliðin á vettvangi, en nú einbeitir Adisak sér að því að geta fljótt faðmað son sinn sem dvelur á sjúkrahúsinu í Chiang Rai ásamt hinum drengjunum.

Þegar Adisak fór af vettvangi eftir að síðustu drengjunum hafði verið bjargað gaf hann sér tíma til þess að þakka öllum þeim sem hann mætti á leiðinni, en um 100 sérfræðingar og þúsundir sjálfboðaliða hjálpuðu við björgunaraðgerðina.

Sonur Adisaks var á meðal þeirra fyrstu sem var bjargað á sunnudag, en faðir hans ákvað þó að vera áfram með fjölskyldum drengjanna sem enn biðu þess að komast út úr hellinum.

„Ég lofaði hinum foreldrunum, þeim fimm sem eftir voru, að ég myndi bíða og fara með þeim út. Ég sagði þeim að ég ætlaði ekki að skilja þau eftir. Við myndum fara saman út,“ sagði Adisak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert