Alvogen í mál vegna aftöku

AFP

Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur höfðað mál gegn Nevada-ríki til þess að koma í veg fyrir að ríkið noti eitt af lyfjum þess við aftöku síðar í dag. Taka á Scott Dozier af lífi með lyfjablöndu sem aldrei hefur verið notuð áður við aftökur. Róbert Wessman er forstjóri Alvogen.

Lögfræðingar Alvogen segja að Nevada-ríki hafi útvegað sér lyf framleidd af Alvogen með ólögmætum hætti og á fölskum forsendum. Brotin séu lög ríkisins sem er ætlað að takast á við ópíóíða-faraldurinn og koma í veg fyrir misnotkun hættulegra lyfja, segir í tilkynningu frá alþjóðlegu mannúðarsamtökunum Reprieve.

Alvogen hefur farið fram á að lögbann verði sett á notkun lyfsins  strax og að Nevada skili lyfinu inn. Málið er höfðað gegn fangelsismálastofnun Nevada, (Nevada Department of Corrections), framkvæmdastjóra stofnunarinnar, James Dzurenda, yfirmanni lyfjamála, Ihsan Azzam, sem og lækninum sem á að sprauta Dozier með lyfjablöndunni við aftökuna í kvöld.

Samkvæmt skjölum málsins heldur Alvogen því fram að embættismenn ríkisins hafi með ólögmætum hætti útvegað sér lyfið án þess að tilgreina til hvers ætti að nota það þrátt fyrir að Alvogen heimili ekki að lyf fyrirtækisins séu notuð í þessum tilgangi.

Fyrsta aftakan í 12 ár

Nevada-ríki hefur ekki tekið fanga af lífi síðan árið 2006 en við aftökuna í kvöld á að nota lyfjablöndu þriggja lyfja: Midazolam, sem er róandi lyf sem Alvogen framleiðir, ópíóíðalyfið Fentanyl (sem er kvalastillandi) og Cisatracurium Besylate sem lamar þann sem fær lyfið í sig og dregur viðkomandi til dauða. Lyfið hefur aldrei verið reynt, samkvæmt Reprieve.
 
Misnotkun á Fentanyl hefur dregið þúsundir til dauða og hefur ríkisstjóri Nevada,Brian Sandoval, talað um hamfarar vegna ópíóíða-faraldurs í ríkinu.  
 
Alvogen er nýjasta dæmið um lyfjafyrirtæki sem höfða mál gegn notkun framleiðslu þeirra við aftökur. 

Scott Raymond Dozier hefur hins vegar sjálfur sent dómurum í Nevada bréf þar sem hann segist vilja deyja. Sama hversu sársaukafullt það verður.

„Ég hef talað skýrt um að vilja láta taka mig af lífi [...] jafnvel þó svo ekki sé hægt að koma í veg fyrir að það sé þjáningarfullt,“ segir í handskrifuðu bréfi sem Dozier skrifaði til dómaranna sem frestuðu aftöku hans í nóvember vegna óvissu um lyfjablönduna sem nota átti við aftökuna. 

Scott Dozier.
Scott Dozier. Fangelsismálayfirvöld í Nevada

Lyfjablandan hefur aldrei, eins og áður sagði, verið reynd áður og er talið að hún geti valdið því að hann verði með meðvitund þegar vöðvar líkamans lamist og hann kafni að lokum - án þess að vitað sé hversu langvinnar þær þjáningar kunni að vera.

Líf í fangelsi er ekkert líf

Dozier hefur tvisvar verið dæmdur fyrir morð og hann hefur reynt að fremja sjálfsvíg. Hann ítrekaði löngun sína til að deyja í símaviðtali við  Las Vegas Review-Journal á sunnudag. „Líf í fangelsi er ekkert líf,“ segir fanginn sem er 47 ára gamall. „Það snýst um að lifa af.“

Dozier ólst upp í borginni Boulder í Nevada þar sem faðir hans starfaði sem borgarverkfræðingur. Hann stundaði nám í Phoenix og lauk hermennsku með láði. Hann starfaði sem bráðaliði en hann lauk því námi á meðan þáverandi eiginkona hans gekk með barn, frístundamálari, fíkill, framleiðandi metamfetamíns og fíkniefnasali, segir í frétt Mercury News. 

Beittur kynferðislegu ofbeldi í æsku

Sem barn var Dozier mjög náinn afa sínum en sá framdi sjálfsvíg þegar Dozier var fimm ára gamall. Í viðtali við geðlækni, sem bar vitni fyrir rétti, sagði Dozier að hann hafi verið beittur kynferðislegu ofbeldi af hálfu nágranna þegar hann var fimm til sjö ára gamall. 

Geðlæknirinn greindi Dozier með andfélagslega persónuleikaröskun með snert af sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun.

„Það eru takmörk fyrir því hversu mikla list- og læknismeðferð manneskjur geta stundað í fangelsum,“ sagði Dozier við réttarhöldin og í bréfum sem hann skrifaði til dómaranna sem frestuðu aftökunni á sínum tíma. 

Dómarinn, Jennifer Togliatti, gerði á sínum tíma að umtalsefni í hve góðu líkamlegu ástandi Dozier væri og sagði að sennilega væri enginn fangi á jarðríki í jafn góðu formi og hann. 

Togliatti var einn af dómurum við réttarhöldin í nóvember 2007 sem dæmdi Dozier til dauða fyrir morð í Arizona og Nevada árið 2002 en morðin tengdust bæði fíkniefnaviðskiptum.

Í Arizona var Dozier dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir að misþyrma og skjóta til bana Jasen Greene, sem var 26 ára, en lík hans fannst í grunnri gröf fyrir utan Phoenix. Vitni við réttarhöldin sagði að Dozier hafi notað slaghamar til þess að brjóta fætur Greene svo hægt væri að koma líkinu í innkaupapoka sem Dozier notaði við undir met-amfetamínið, búnað og efni. 

Höfuðstöðvar Alvogen.
Höfuðstöðvar Alvogen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við réttarhöldin í Nevada var Dosier dæmdur til dauða fyrir að ræna, myrða og sundurlima Jeremiah Miller, 22 ára, á La Concha mótelinu við Las Vegas Strip. Dozier hafði unnið á mótelinu og bjó þar. 

Höfuðið fannst aldrei

Miller hafði komið til Nevada frá Phoenix til að kaup efni til met-amfetamín framleiðslu. Sundurlimað lík hans fannst í ferðatösku sem komið hafði verið fyrir í ruslagámi fjölbýlishúss. Höfuð hans fannst aldrei né heldur hluti af útlimum hans. Borin voru kennsl á líkið af húðflúri á öxlum hans. 

Talið er að höfuð hans hafi endað í sementsfötu sem Dozier hafði útvegað sér hjá starfsmanni mótelsins. Fjölskyldur fórnarlamba Dozier ætla að vera viðstaddar aftökuna í Ely ríkisfangelsinu klukkan 20 í kvöld að staðartíma. 

Dozier hefur ekki áfrýjað dauðadómnum og öðrum refsingum sem honum hefur verið gert að sæta. Hann er því einn af þeim 10% 1.477 fanga sem hafa verið dæmdir til dauða frá því ríki Bandaríkjanna fengu heimild til þess að dæma fanga til dauða á nýjan leik árið 1977. Hann segir í raun sjálfur að ríkið sé að aðstoða hann við að fremja sjálfsvíg - eitthvað sem honum hafi ekki tekist sjálfum.

 The Mercury News

Las Vegas Review Journal

Los Angeles Times

Vice

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert