Drengirnir voru sofandi á börum þegar þeir voru fluttir út úr hellinum, segir sérsveitarmaður í taílenska sjóhernum. Hann var síðasti kafarinn út úr hellinum ásamt áströlskum lækni sem gætti drengjanna.
„Einhverjir voru sofandi, einhverjir hreyfðu fingurna eins og þeir væru óstyrkir en þeir önduðu allir,“ segir Chaiyananta Peeranarong þegar hann veitti fyrstu nákvæmu upplýsingarnar um björgun drengjanna tólf og þjálfara þeirra.
Fjölskyldur drengjanna bíða enn eftir því að fá að hitta þá en þeir eru allir þrettán á sjúkrahúsi. Síðustu drengirnir og þjálfari þeirra komust út úr hellinum í gær við mikinn fögnuð heimsbyggðarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Dr. Tongchai Lertvirairatanapong eru drengirnir við góða heilsu þrátt fyrir að þeir hafi misst um 2 kíló að meðaltali þennan tíma sem þeir voru lokaðir inni í hellinum.
Hann segir að það sé ekki síst þjálfara þeirra, munkinum fyrrverandi Ekkapool Ake Chantawong, að þakka. „Ég verð að hrósa þjálfaranum fyrir hvað hann hugsaði vel um þá og gætti þeirra vel.“