Fríverslunarviðræður ESB og BNA á ný?

Trump ræddi meðal annars stöðu viðskipta milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna …
Trump ræddi meðal annars stöðu viðskipta milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á blaðamannafundinum í dag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf í skyn á blaðamannafundi í Brussel í dag að fríverslunarviðræður milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gætu farið af stað á nýjan leik, en þær strönduðu 2016. Hann sagði einnig að til stæði að funda með forystumönnum Evrópusambandsins í næstu viku.

„Okkar bændur hafa sætt ósanngjarnri meðhöndlun, það hefur verið lokað á þá af Evrópusambandinu,“ var meðal þess sem kom fram í máli Trump í dag. Hann hyggst ræða viðskipti milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á fundinum í næstu viku og segist vongóður um að hægt verði að bæta úr stöðunni.

Orð Trumps benda til þess að viðræður Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um fríverslunarsamning milli þeirra, þekkt sem TTIP, hafi strandað 2016 meðal annars á frjálsu flæði landbúnaðarvara og hann vilji hefja viðræður á ný.

Forsetinn sagði meðal annars að hann telji að á líklegt að á endanum munu að Bandaríkin njóta „sanngjarnari“ skilyrði fyrir viðskipti við Evrópusambandið.

Viðræður stóðu í þrjú ár

Þegar viðræður hófust 2013 voru vísbendingar um að ekki  ríkti einhugur meðal aðildarríkja Evrópusambandsins um hversu víðtækt nýr viðskiptasamningur ætti að vera. Þá vildu Þjóðverjar að fríverslunarsamningur við Bandaríkin myndi hafa víða skírskotun á meðan Frakkar og ríki í suðurhluta Evrópu að ýmsir vöruflokkar yrðu undanskildir, svo sem landbúnaðarvörur.

Það var ekki fyrr en í ágúst 2016 sem fréttir fóru að berast um að TTIP-viðræðurnar hefðu mistekist. Þá sagði Sigmar Gabriel, þáverandi efnahagsmálaráðherra Þýskalands, að öll von um samning væri úti og að enginn hafi viljað viðurkenna það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert