Vonin slokknaði eða kviknaði á víxl

Björgunarmenn koma með einn drenginn út úr hellinum á þriðjudag.
Björgunarmenn koma með einn drenginn út úr hellinum á þriðjudag. AFP

Þegar björgunarteymið hafði tekið saman síðustu vatnsdælurnar í Tham Luang-hellinum á Taílandi og þar með formlega lokið einu frækilegasta björgunarafreki allra tíma brutust út mikil fagnaðarlæti meðal viðstaddra. Drengirnir tólf og þjálfari þeirra, sem höfðu verið innlyksa djúpt í iðrum jarðar dögum saman, voru komnir út og í öruggt skjól. 

En allir í teyminu vita að það gat brugðið til beggja vona við björgun hópsins sem tók um þrjár vikur. Það var allt eins líklegt að aðgerðin myndi breytast í martröð.

Er upp komst að hópurinn hefði farið inn í hellinn eftir fótboltaæfingu laugardaginn 23. júní óttuðust margir að þaðan myndi hann ekki koma á lífi. Enginn vissi hvar piltarnir og þjálfarinn væru enda hellakerfið eins og völdunarhús með þröngum göngum og hellisskútum. Eina sem hélt voninni vakandi var að hópurinn hafði áður komið þangað og þekkti því hellinn að einhverju leyti. 

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar ljóst var að björgunaraðgerðin hafði …
Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar ljóst var að björgunaraðgerðin hafði tekist. AFP

Vatn hafði flætt inn svo að hellismunninn varð ófær á augabragði. Vatnið seytlaði ekki aðeins inn um munnann heldur einnig í gegnum jarðlögin sem gerð eru úr kalksteini. Það var því ekki vitað hversu mikið vatn hefði komist inn eftir að miklar rigningar hófust, fyrr en hið hefðbundna regntímabil sagði til um.

Vatnsdælum var komið fyrir í hellinum og sífellt var bætt við. Þá hófu kafarar taílenska hersins að skoða aðstæður og þeim brá í brún er þeir sáu við hvað var að eiga. Fyrir utan þrönga og dimma gangana flæddi um þá drullugt vatn, svo aurblandað að þeir sáu aðeins um nokkra sentimetra fram fyrir sig. Þá lágu gangarnir upp og niður og voru svo þröngir á vissum stöðum að um þá þurfti að skríða. Að auki var vatnið straumþungt svo þeir köstuðust upp að grófum og beittum veggjunum.

Arpakorn Yookongkaew, yfirmaður í taílenska hernum, sagði að eftir fyrsta mat á aðstæðum hefði von um að finna drengina minnkað. Í raun hefði verkefnið virst vonlaust en það varð þó ekki til þess að leitin yrði blásin af. Þvert á móti var kallað út fjölmennara lið og fljótlega voru 110 hermenn og sjálfboðaliðar komnir á vettvang. Þeir ætluðu sér að finna drengina.

Teymi Yookongkaew fikraði sig sífellt lengra inn í hellinn í gegnum vatnið sem þeir síðar lýstu eins og svörtu, köldu kaffi. Loks fundu þeir fótspor á stað þar sem göngin kvíslast og þá kviknaði vonin af krafti á ný.

Það sem þeir glímdu meðal annars við var að vatn streymdi stöðugt inn, hraðar en hægt var að dæla því út. Því urðu þeir frá að hverfa á þessum tímapunkti.

Einn drengjanna fluttur síðasta spölinn út úr hellinum á börum.
Einn drengjanna fluttur síðasta spölinn út úr hellinum á börum. AFP

Ákveðið var að flytja öflugar iðnaðardælur á vettvang og byrjað var að dæla vatninu út af meiri ákefð en áður. En þrátt fyrir dælurnar lækkaði vatnsyfirborðið aðeins um 1-2 sentimetra á dag.

Fréttir af björgunartilrauninni bárust eins og eldur í sinu og kafarar um allan heim fylgdust með. Margir reyndustu kafarar veraldar ákváðu að leggja sitt af mörkum. Í raun var virkjað net kafara og aðgerðir þeirra og aðkoma samrýmdar. Fyrir þeirri vinnu fóru meðal annars breskir kafarar og var þremur þeirra flogið sem fljótt sem auðið var til Taílands. Í þeim hópi voru John Volanthen og Rick Stanton sem eru meðal reyndustu hellakafara heims.

Um leið og þeir komu í hellinn fóru þeir að kafa. Þá hafði enn bætt í úrkomuna og vatnsyfirborðið hækkað að sama skapi. Risavaxið og hættulegt verkefni beið þeirra.

„Á þessum tímapunkti var ekki nokkur leið fyrir þá að komast að drengjunum,“ segir Bill Whitehouse, sem fer fyrir samtökum kafara á Bretlandseyjum. „Aðstæður voru í raun slæmar, vatnsstraumurinn var þungur og leir gerði það að verkum að skyggni var mjög lítið. Hreinskilnislega þá voru líkur á því að komast áleiðis ekki miklar,“ segir hann í samtali við CNN.

Hrikalegar aðstæður í hellinum. Göngin hlykkjast eins og snákur lengst …
Hrikalegar aðstæður í hellinum. Göngin hlykkjast eins og snákur lengst inn í fjallið. AFP

Þarna var vika frá því að drengirnir og þjálfarinn fóru inn í hellinn. Enn hafði ekkert til þeirra spurst og enginn vissi hvort þeir væru enn á lífi.

Tveimur dögum síðar birti til í orðsins fyllstu merkingu: Það dró úr úrkomu og vatnið varð tærara. Bresku kafararnir auk tveggja ástralskra kortlögðu leiðina inn í hellinn. Þar var auðvitað niðamyrkur og þó að þeir væru með höfuðljós þurftu þeir að fikra sig áfram. „Þetta er eins og að kafa í gegnum þoku með háu ljósin kveikt,“ segir Whitehouse.

En 2. júlí dró svo til tíðinda. Í þriðju tilraun kafaranna til að komast lengra inn í hellinn fundu Volanthen og Stanton þá. Hópurinn sat í hnipri á syllu. „Hversu margir eru þið?“ spurði Vonathen. „Þrettán,“ var svarað. 

„Frábært,“ sagði kafarinn ánægður.

En þó að drengirnir væru fundnir blasti stóra spurningin við: Hvernig átti að koma þeim út?

Síðustu fjórir kafararnir sem komu út úr hellinum á þriðjudag.
Síðustu fjórir kafararnir sem komu út úr hellinum á þriðjudag. AFP

Yookongkaew segir að í fyrstu hafi staðið til að láta þá bíða í hellinum í mánuð og á þeim tíma myndi björgunarteymið vinna að því að finna leið til að koma þeim út. Var meðal annars horft til þess að mögulega væri hægt að finna annan inngang í hellinn, bora jafnvel inn í fjallið. Eða bíða þar til vatnið sjatnaði.

En það þótti ekki vænlegt til árangurs. Hópurinn var í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá hellismunnanum og um 800 metra ofan í jörðinni frá fjalltoppi. Þá var súrefni af skornum skammti og ljóst að það myndi minnka enn frekar með hækkandi yfirborði vatnsins.

Að kafa með þá út var einnig mjög hættulegt. Reyndu kafararnir höfðu átt fullt í fangi með að komast til þeirra, aðstæðurnar voru þær erfiðustu sem þeir höfðu nokkru sinni séð. Og drengirnir kunnu flestir ekki að synda og hvað þá að kafa.

„Drengirnir myndu ekki lifa af langa dvöl í hellinum. En ef þú reynir hættulega aðgerð og þeir deyja, hefði verið betra að skilja þá eftir þarna inni og vona að vatnið sjatnaði?“ segir Whitehouse.

Drengirnir eru nú allir á sjúkrahúsi og þar munu þeir …
Drengirnir eru nú allir á sjúkrahúsi og þar munu þeir líklega dvelja í mánuð til viðbótar. AFP

Næstu daga voru fluttar vistir til drengjanna, þeir voru skoðaðir af lækni, fengu næringarríkan mat og súrefni. Þá var strax hafist handa við að kenna þeim undirstöðuatriði köfunar.

Sá skelfilegi atburður átti sér stað að taílenskur kafari, sem var að flytja súrefniskúta til drengjanna, lést. Hann missti meðvitund á leiðinni út og endurlífgun sem félagi hans reyndi bar ekki árangur. Dauði Saman Kunan var mikið áfall fyrir allt björgunarteymið og sýndi hversu hættuleg þessi leið inn í hellinn var.

Hins vegar gafst lítill tími til að syrgja því halda varð áfram að reyna björgun drengjanna.

Tveir breskir kafarar til viðbótar komu á vettvang og sömuleiðis var meiri búnaður fluttur þangað.

Kafari við öryggislínur sem komið var upp á leiðinni að …
Kafari við öryggislínur sem komið var upp á leiðinni að drengjunum. Göngin eru að hluta full af vatni. AFP

Sunnudaginn 8. júlí var svo ákveðið að framkvæma áætlun sem reynt hafði verið að útfæra í smáatriðum. Drengirnir voru látnir fara í blautbúninga, á þá var sett köfunargríma sem tengd var súrefniskút. Kafarar dreifðu sér um göngin sem liggja inn í hellisskútann og allir höfðu sitt afmarkaða hlutverk; að tryggja för drengjanna út.

Hópnum var skipt í þrennt. Hver drengur fékk fylgd tveggja kafara út. Kafararnir báru súrefniskúta drengjanna og fylgdu þeim hægt og rólega í gegnum göngin. Aðgerðirnar stóðu í þrjá daga og tók hver björgun marga klukkutíma. Fyrsti hluti leiðarinnar, um einn kílómetri, var sá hættulegasti því þá þurfti að fara um þröng göng sem full voru af vatni.

Eftir það tók við auðveldari leið sem að mestu var hægt að vaða. Þetta var endurtekið sunnudag, mánudag og þriðjudag, þar til allir drengirnir og þjálfari þeirra voru komnir út.

Fram hefur komið að drengirnir fengu kvíðastillandi lyf á leiðinni út þó að aðrar fréttir hermi að þeir hafi verið svæfðir. Yookongkaew vill ekki fara af nákvæmni út í þetta en segir að nauðsynlegt hafi verið að tryggja að drengirnir fengju ekki kvíðakast sem hefði stefnt lífi þeirra í voða.

Sjálfboðaliðar sem voru að störfum á vettvangi fagna.
Sjálfboðaliðar sem voru að störfum á vettvangi fagna. AFP

Drengirnir liggja nú allir á sjúkrahúsi og eru í eingrun vegna mögulegrar sýkingarhættu. Það gæti verið vika þar til foreldrar þeirra fá að hitta faðma þá að sér en í gær fengu þeir að sjá þá í gegnum glugga á gjörgæslunni. 

Björgunarteymið fær nú kærkomna hvíld og kafarar víðs vegar að úr heiminum hafa snúið aftur til síns heima.

Byggt á fréttum CNN, AFP, Guardian og fleiri.

Drengirnir á sjúkrahúsinu.
Drengirnir á sjúkrahúsinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert