12 rússneskir leyniþjónustumenn hafa verið ákærðir fyrir að brjótast inn í tölvukerfi flokksmanna Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016. Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, greinir frá þessu.
Leyniþjónustumönnunum tólf er gefið að sök að hafa brotist inn í tölvukerfi flokksins og komist yfir umfangsmikil tölvupóstsamskipti flokksmanna.
Ákæran hluti af afrakstri rannsóknar Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, vegna meintra afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað sagt að rannsókn Muellers sé ekkert nema nornaveiðar en að hann muni að sjálfsögðu ræða meint afskipti Rússa af kosningabaráttunni við Valdimír Pútín, forseta Rússlands, á leiðtogafundi þeirra sem fram fer á mánudag í Helsinki. Það sé hins vegar ekki gefið að þær viðræður muni skila ákveðinni niðurstöðu.
The Washington Post greindi frá því í síðasta mánuði að Mueller ætli að ljúka við rannsókn sína í lok sumars.