Lífverði Bin Laden vísað úr landi

Osama bin Laden var ráðinn af dögum árið 2011.
Osama bin Laden var ráðinn af dögum árið 2011. AFP

Túnisa sem talinn er hafa verið lífvörður Osama bin Landen hefur verið vísað frá Þýskalandi, um áratug eftir að umsókn hans um hæli þar í landi var fyrst hafnað.

Maðurinn er kallaður Sami A. í þýskum fjölmiðlum. Hann er 42 ára og hefur búið í Þýskalandi í yfir tvo áratugi. Í kjölfar mikillar umræðu um málefni hælisleitenda í Þýskalandi var mál hans að nýju tekið fyrir. 

„Ég get staðfest að Sami A. var sendur til Túnis í morgun og afhentur þarlendum yfirvöldum,“ sagði talsmaður þýska innanríkisráðuneytisins við blaðamenn í dag en frétt um brottvísunina var fyrst birt í dagblaðinu Bild.

Óttast pyntingar

Sami A. hafði beðist undan því að vera sendur til baka þar sem hann sagðist óttast pyntingar í upprunalandi sínu, Túnis.

Dómstóll í borginni Gelsenkirchen mælti í gær gegn brottvísuninni og vísaði til þess mats að hann gæti átt von á pyntingum og ómannúðlegri meðferð í Túnis.

Hins vegar barst þessi niðurstaðan alríkisyfirvöldum ekki fyrr en í morgun því hún var send með símbréfi en þá hafði Sami A. þegar verið kominn upp í flugvél og á leið til Túnis að því er DPA-fréttastofan greindi frá. 

Vegna meintra tengsla sinna við hryðjuverkahópa hefur Sami A. í fleiri ár þurft að gefa þýskum yfirvöldum reglulega skýrslu. Hann hefur ekki komist í kast við lögin þar í landi.

Sami A. hefur alltaf neitað því að hafa verið lífvörður Bin Ladens, leiðtoga Al-Qaeda. 

Í dómsmáli árið 2015 var það þó niðurstaðan að hann hefði hlotið herþjálfun í búðum Al-Qaeda í Afganistan árið 1999 og hafi verið hluti af varðliði Bin Ladens. 

Þýsk yfirvöld höfnuðu fyrst hælisumsókn Samis A. árið 2007 en ákvörðun um brottvísun var sífellt frestað vegna þeirrar afstöðu dómstóla að hann myndi mögulega sæta pyntingum í Túnis.

Dagblaðið Bild hefur ítrekað fjallað um máli Samis A. að undanförnu og m.a. bent á að hann hafi verið á opinberri framfærslu. Það vakti reiði meðal margra. 

Sami A. á eiginkonu og börn sem eru þýskir ríkisborgarar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert