Fyrsta æfing Villigaltanna, fótboltaliðs taílensku drengjanna og þjálfara þeirra sem innlyksa urðu í hellinum, fór fram í gær. Liðsfélagar drengjanna tólf geta ekki beðið eftir að hitta þá á vellinum.
Björgun hópsins hefur verið vel fagnað á Taílandi. Þó að tólfmenningunum heilsist vel eftir atvikum verða þeir áfram á sjúkrahúsi í einhverjar vikur.
Liðsfélagar þeirra í Villigöltunum hafa ekki farið á æfingu frá því hópurinn hvarf 23. júní. En þegar fréttir af björguninni bárust fögnuðu fæstir jafnmikið og Villigeltirnir í Mae Sai, heimabæ liðsins. Og í gær voru þeir mættir á æfingu á nýjan leik.
„Ég vil segja strákunum að ég sakna þeirra og að ég vil faðma þá,“ segir Supaghid Pragaihong, einn Villigaltanna við AFP. „Ég óska þeim skjóts bata svo við getum spilað fótbolta saman fljótlega.“
Yfirþjálfari liðsins segir að hinir ungu Villigeltir hafi verið ánægðir að mæta á æfingu vitandi að liðsfélagar þeirra eru hólpnir.