Verða útskrifaðir á fimmtudag

Þrír drengjanna á sjúkrahúsi eftir björgunina.
Þrír drengjanna á sjúkrahúsi eftir björgunina. AFP

Drengirnir tólf, sem bjargað var úr hellinum í Taílandi eftir að hafa verið fastir þar inni í rúmlega tvær vikur, verða útskrifaðir frá sjúkrahúsi á fimmtudag. Frá þessu greina heilbrigðisyfirvöld í landinu, en drengirnir hafa verið hvattir til að forðast að ræða við fjölmiðla utan veggja sjúkrahússins.

Þjálfari drengjanna, í knattspyrnuliði sem kennt er við villisvín, verður útskrifaður á sama tíma.

„Öll þrettán villisvínin eru við góða líkamlega heilsu [...] allir eru þeir léttir í lund,“ sagði heilbrigðisráðherrann Piyasakol Sakolsattayatorn við blaðamenn á fundi fyrr í dag. „Þeir verða útskrifaðir allir saman á fimmtudag.“

Bætti ráðherrann við að drengjunum og foreldrum þeirra hefði verið ráðlagt að verja tíma með vinum og fjölskyldu í stað þess að veita fjölmiðlum viðtöl, sem vakið gætu óæskileg áfallastreituviðbrögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert