Hvatti May til að höfða mál gegn ESB

Donald Trump og Theresa May.
Donald Trump og Theresa May. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, til að kæra Evrópusambandið í stað þess að semja við sambandið um útgöngu Breta. Frá þessu greindi May í samtali við breska ríkisútvarpið BBC í morgun.

Margir spurðu sig að því hvaða ráðgjöf Trump hefði veitt Theresu May þegar hann var í opinberri heimsókn í Bretlandi í síðustu viku, en á fimmtudag, í aðdraganda viðræðna leiðtoganna tveggja, sagði Trump í samtali við dagblaðið The Sun að hann hefði sagt May hvernig hún ætti að eiga við Evrópusambandið „en hún hlustaði ekki“.

„Hann sagði að ég ætti að kæra Evrópusambandið. Kæra Evrópusambandið,“ sagði May í samtali við breska ríkisútvarpið í morgun. 

Í samtali við The Sun sagði Trump að hann hefði farið allt öðruvísi að hlutunum væri hann May. „Ég fór reyndar og sagði May hvernig hún ætti að gera þetta en hún hlustaði ekki á mig. Hún vildi fara aðra leið,“ sagði Trump í samtali við The Sun en á föstudag eftir viðræðurnar sagði hann að þetta hefði frekar verið tillaga fremur en ráðgjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert