Drengirnir tólf og þjálfari þeirra, sem bjargað var úr taílenska hellinum í síðustu viku eftir að hafa setið þar fastir í meira en hálfan mánuð, syrgðu í gær kafarann Saman Kunan sem lést við björgunaraðgerðirnar.
Saman Kunan, sem var yfirliðsforingi í taílenska hernum, hafði ferjað súrefniskúta inn í hellinn til drengjanna og var á útleið á ný er hann missti meðvitund. Félagi hans reyndi þá endurlífgun en án árangurs.
Fregnum af andláti hans hafði fram til þessa verið haldið leyndum fyrir drengjunum, þar sem æskilegt þótti að bíða þar til þeir teldust í stakk búnir til að móttaka þær.
„Þeir grétu allir og vottuðu samúð sína með því að skrifa skilaboð á teikningu af Saman, og viðhöfðu einnar mínútu þögn til að virða minningu hans,“ segir Jedsada Chokdamrongsuk, talsmaður heilbrigðisráðuneytis landsins í yfirlýsingu.
„Þeir þökkuðu honum einnig björgunina og lofuðu að vera góðir strákar.“