Skógareldar loga nú víðs vegar í Svíþjóð og er þess vænst að áfram logi næstu daga. Spáð er áframhaldandi hlýindum og þurrkum og í morgun hefur bætt töluvert í vind sem hefur gert slökkvistarfið enn erfiðara. Þá breyttist vindáttin skyndilega í morgun með þeim afleiðingum að slökkviliðsmenn urðu frá að hverfa í Ljusdal í suðausturhluta landsins. Í nótt var óttast að eldurinn ógnaði byggð í bænum Ängra en er leið á nóttina þótti ljóst að slík hætta væri liðin hjá, að því er fram kemur í fréttum sænska ríkisútvarpsins.
Tilkynnt hefur verið um yfir 1.200 elda í landinu það sem af er ári, langflesta nú síðustu daga.
Norðmenn aðstoða Svía við slökkvistörfin og þaðan hafa komið sex þyrlur til aðstoðar. Þá hefur einnig verið beðið um aðstoð frá Evrópusambandinu ef ástandið heldur áfram að versna.
Flestir eldarnir loga í Dölunum, Jämtlandi og Örebro en þeir hafa þó kviknað víðs vegar annars staðar um landið.
Fältjägarbataljonen inklusive 145. Hvundkompaniet bekämpar flera skogsbränder i Jämtland. Foto: Anders Ericsson pic.twitter.com/HEbE92Qimk
— Tidningen Hemvärnet (@TidningenHv) July 16, 2018