Kennir „nornaveiðum“ um samskiptavanda

Donald Trump og Vladimír Pútín ræðast við á leiðtogafundi í …
Donald Trump og Vladimír Pútín ræðast við á leiðtogafundi í nóvember í fyrra. AFP

Donald Trump er ekki með miklar væntingar til fundar síns með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Helsinki í dag. Hann segir að mögulega komi þó eitthvað gott út úr fundinum.

Bandaríkjaforseti segir að hann muni m.a. ræða við Pútín um tölvuinnbrot og árásir sem Rússar eru sakaðir um að hafa gert í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs árið 2016. Tólf Rússar hafa verið ákærðir í málinu.

Trump sagði í færslu á Twitter í morgun að hann kenndi „nornaveiðum“ alríkislögreglunnar, FBI, um hversu slæm samskipti Bandaríkjamanna og Rússa væru orðin. „Samband okkar við Rússland hefur ALDREI verið jafnslæmt þökk sé margra ára fíflaskap og heimsku og nú, hinum fölsuðu nornaveiðum!“ skrifaði Trump og vísaði þar til rannsóknar sérstaks saksóknara FBI, Roberts Mueller, á meintum afskiptum Rússa af kosningunum. 

Leiðtogarnir munu hittast einir, aðeins með túlka sína sér við hlið. Þetta er fyrsti fundur þeirra tveggja af þessum toga en þeir hafa nokkrum sinnum hist við önnur tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert