Staðfestir að beinin séu keisarans

Nikulás Rússakeisari og fjölskylda hans.
Nikulás Rússakeisari og fjölskylda hans. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ný DNA-rannsókn hefur staðfest að bein sem talin voru af síðasta keisara Rússlands og fjölskyldu hans, sem var myrt í rússnesku byltingunni, eru raunverulega úr keisarafjölskyldunni.

Frá þessu greindu rannsakendur í dag, en staðfesting er talin kunna að auka líkur á að rússneska rétttrúnaðarkirkjan viðurkenni nú réttmæti beinanna og veiti þeim greftrun.

Það var kirkjan sjálf sem fór fram á DNA-rannsóknina, en kirkjan hafði dregið fyrri rannsókn á beinunum í efa. Rannsóknarnefnd, sem jafnan rannsakar alvarlega glæpi og dróst inn í deiluna, segir niðurstöðuna nú hins vegar staðfesta að líkamsleifarnar séu af Nikulási II keisara, fjölskyldu hans og fylgdarliði. Lík föður Nikulásar, Alexanders III, var grafið upp í tengslum við rannsóknina til að sanna að þeir væru feðgar.

Talsmenn rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar segjast munu skoða niðurstöðurnar og lofuðu jafnframt framgang rannsóknarinnar sem hefði einkennst af gagnsæi.

Hefur verið neitað um hefðbundna greftrun

Bolsévikar skutu keisarann, konu hans og fimm börn þeirra, sem og þjóna og lækni fjölskyldunnar aðfaranótt 17. júlí árið 1918. Keisaranum hafði þá þegar verið steypt af stóli og bjó fjölskyldan í varðhaldi í borginni Sverdlovsk í Úralfjöllunum. Fjölskyldan var því næst grafin með hraði og var það ekki fyrr en 1979 sem lík hennar fundust.

Líkamsleifar Nikulásar, eiginkonu hans og þriggja barna þeirra voru síðan flutt til Sankti Pétursborgar 1998, en rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur til þessa neitað að veita þeim hefðbundna greftrun og hefur dregið í efa að líkamsleifarnar væru keisarafjölskyldunnar.

Bein keisarasonarins Alexei og dóttur hans Maríu fundust á öðrum stað árið 2007 og hafa aldrei verið jarðsett.

DNA-rannsókn hefur verið gerð á beinunum áður og var sú rannsókn einnig framkvæmd af alþjóðlegum sérfræðingum og hefur jafnan sætt undrun að kirkjan hafi ekki veitt þeim greftrun fyrr. Nikulás og fjölskylda hans voru tekin í dýrlingatölu hjá kirkjunni og því eru bein fjölskyldunnar helgir munir og málið því allt hið viðkvæmasta fyrir kirkjuna.

Sú flökkusaga hefur lengi lifað góðu lífi að eitt barnanna hafi lifað af og hafa nokkrar konur gefið sig fram í gegnum tíðina og fullyrt að þær séu keisaradóttirin Anastasía. Réttmæti þeirra fullyrðinga var þó aldrei sannað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert