Þungt yfir leiðtogunum við upphaf fundar

Leiðtogarnir virtust ekki glaðir að sjá þar sem þeir tókust …
Leiðtogarnir virtust ekki glaðir að sjá þar sem þeir tókust í hendur fyrir fund sinn í Helsinki. AFP

Fundur Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Donald Trump Bandaríkjaforseta er hafinn í forsetahöllinni í Helsinki, um klukkustund seinna en áætlað var.

Pútín lenti í Helsinki talsvert seinna en gert var ráð fyrir sem olli því að Trump þurfti að fresta brottför frá hóteli sínu að forsetahöllinni. Þeir mættu svo með um tíu mínúta millibili á fundarstað þar sem þeir tókust í hendur fyrir myndavélarnar og gáfu fjölmiðlum stuttar yfirlýsingar áður en þeir gengu til hádegisverðar undir fjögur augu.

Pútín sagði við Trump fyrir fundinn að það væri mikil ánægja að hitta hann og Trump óskaði Pútín til hamingju með heimsmeistaramótið í knattspyrnu og frammistöðu rússneska liðsins. „Ég horfði talsvert á það, þetta var fallega gert.“

Forsetarnir gáfu fjölmiðlum stuttar yfirlýsingar áður en þeir gengu til …
Forsetarnir gáfu fjölmiðlum stuttar yfirlýsingar áður en þeir gengu til fundar. AFP

Þá sagði Trump að þeir hefðu um margt að ræða, meðal annars viðskipti við Kína og „sameiginlega vin okkar Xi forseta.“ Trump bætti einnig við að tækifærin í sambandi Rússa og Bandaríkjanna væru fjölmörg þó að stirt hefði verið á milli ríkjanna að undanförnu. „Heimurinn vill sjá okkur ná saman.“ Trump minntist ekkert á afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016.

Ekki var gefinn kostur á spurningum blaðamanna fyrir fundinn sem áætlað er að muni standa yfir í um níutíu mínútur. Samkvæmt vef Guardian virtist vera þungt yfir leiðtogunum tveimur sem voru stífir og brostu lítið. 

Vandlega verður fylgst með fundinum beggja megin Atlantshafsins, en stirt …
Vandlega verður fylgst með fundinum beggja megin Atlantshafsins, en stirt hefur verið á milli ríkjanna tveggja að undanförnu. AFP

Vandlega verður fylgst með fundinum beggja megin Atlantshafsins. Aðeins fáeinir dagar eru liðnir síðan tólf rússneskir njósnarar voru ákærðir fyrir hlutverk sitt í að brjótast inn í tölvukerfi Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2016. Trump hefur sagt í aðdraganda fundarins að hann vonist eftir bættum samskiptum ríkjanna tveggja, en kalt hefur verið á milli undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert