Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fordæmt rússnesk yfirvöld vegna handtöku og fangelsisvistunar meðlima femínísku andófshljómsveitarinnar Pussy Riot árið 2012. Brotin gegn þeim eru talin sérstaklega alvarleg og málsmeðferð þeirra braut í bága við fimm ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, að því er BBC greinir frá.
Hljómsveitarmeðlimir Pussy Riot voru handteknir eftir að hljómsveitin kom fram og flutti mótmælalag í dómkirkju í Moskvu, höfuðborg Rússlands. Tveir meðlimir sættu 16 mánaða fangelsi í kjölfar sakfellingar.
Hljómsveitin er þekkt fyrir andstöðu sína við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Fjórir meðlimir hennar voru handteknir á sunnudag eftir að hafa hlaupið inn á leikvöllinn þar sem úrslitaleikur heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fór fram.
Mannréttindadómstóllinn sakar rússnesk yfirvöld um að hafa brotið fjölmörg ákvæði mannréttindasáttmálans, meðal annars með því að niðurlægja sakborninga og neita þeim um aðgengi að lögmönnum sínum.
Árið 2015 samþykkti rússneska þingið lagabreytingu þess efnis að það gæti synjað úrskurðum Mannréttindadómstólsins í kjölfar þess að dómstóllinn sakfelldi Rússland fyrir njósnir.
Maria Alyokhina, Nadezhda Tolokonnikova og Yekaterina Samutsevichm, meðlimir Pussy Riot, voru handteknar í febrúar 2012 eftir að þær fluttu lagið Punk Prayer - Virgin Mary, Drive Putin Away í dómkirkju Krists frelsara í Moskvu.
Verðir náðu að fjarlægja hljómsveitina eftir aðeins eina mínútu. Allar voru þær dæmdar til tveggja ára fangelsis, en Alyokhina og Tolokonnikova voru látnar lausar eftir 16 mánuði. Samutsevichm sat aðeins sjö mánuði á bakvið lás og slá áður henni var veitt sakaruppgjöf.
Eftir að þeim var sleppt var Alyokhina og Tolokonnikova opinberlega vikið úr hljómsveitinni Pussy Riot vegna þess að þær höfðu gleymt tilgangi og hugsjón sveitarinnar.