Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hefur greint frá því að ríkisstjórn hans muni leggja fram frumvarp um ætlað samþykki í kynlífi. Verður það lagt fram til að koma í veg fyrir tvíræðni í kynferðisbrotamálum.
Í umfjöllun um málið segir að lögin séu svipuð þeim sem samþykkt voru í Svíþjóð í maí. Samkvæmt þeim er saknæmt að hafa kynmök við einhvern án þess að fyllilega sé ljóst að viðkomandi sé samþykkur. Samþykki telst vera ef viðkomandi hefur sagt það berum orðum eða sýnt það með gerðum sínum að hann vilji stunda kynmök. Ef ekki þá er það talið saknæmt og skiptir engu hvort ofbeldi hafi verið beitt eður ei.
Fjöldi fólks mótmælti þegar fimm karlmenn voru sýknaðir af því að hafa hópnauðgað 18 ára stúlku í anddyri fjölbýlishúss í Pamplona í júlí árið 2016. Þeir tóku atvikið upp á myndband, deildu því á samskiptaforritinu WhatsApp og stærðu sig af gjörðum sínum.
Mennirnir voru allir sýknaðir af kynferðislegri árás, sem felur í sér nauðgun, en dæmdir í níu ára fangelsi fyrir kynferðisbrot. Samkvæmt spænskum lögum felur það ekki í sér ofbeldi eða ógnun.
„Til að hafa hlutina á hreinu; nei þýðir nei og ef einhver segir ekki já þá þýðir það nei,“ sagði Sanchez á þingfundi.