Undirrita stærsta fríverslunarsamning heims

Donald Tusk, Shinzo Abe og Jean-Claude Juncker á skrifstofu forsætisráðherrans …
Donald Tusk, Shinzo Abe og Jean-Claude Juncker á skrifstofu forsætisráðherrans í Tókýó í dag. AFP

Evrópusambandið og Japan hafa undirritað víðfeðman fríverslunarsamning, sem fellir niður nær alla tolla á milli svæðanna. Samningurinn er sá stærsti sem undirritaður hefur verið frá stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Saman standa Evrópusambandið og Japan undir þriðjungi heimsframleiðslunnar, ESB um 25% og Japan rúm 7%.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, undirrituðu samninginn ásamt Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, í Tókýó í dag eftir að ráðherraráð ESB gaf grænt ljós fyrr í mánuðinum.

Með nánara samstarfi við Evrópusambandið vonast Japan til að lífga upp á fjárfestingar milli aðilanna og berjast gegn nýtilkominni sveiflu í átt að verndarstefnu á alþjóðavettvangi, að því er segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Japan.

Evrópusambandið segir að samningurinn muni leiða til aukins útflutnings evrópsks bjórs, fatnaðar, snyrtivara og efna til Japan, sem muni styrkja evrópskt efnahagslíf. Japanar hafa í gegnum tíðina girnst evrópskar vörur og þykir víst að verðlækkun á vörum á borð við parmesan, súkkulaði og víni muni auka sölu.

Stjórnvöld bæði innan Japan og Evrópusambandsins vonast til að samningurinn taki gildi áður en Bretland yfirgefur sambandið í mars á næsta ári. Takist það mun samningurinn sjálfkrafa ná yfir Breta meðan á breytingarskeiði Breta stendur yfir, en fyrirhugað er að það standi í um tvö ár frá útgöngu.

Sérfræðingar hafa áður sagt að ólíklegt sé að Bretum takist á að semja um betri fríverslunarsamning við Japana en þann sem nú var undirritaður.

Leiðtogar Evrópusambandsins funduðu með kínverskum stjórnvöldum áður en þeir héldu …
Leiðtogar Evrópusambandsins funduðu með kínverskum stjórnvöldum áður en þeir héldu til Tókýó. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert