Danir fjalla um komu Kjærsgaard

Pia Kjærsgaard sagði að Dönum þættu þeir ekki vera útlendingar …
Pia Kjærsgaard sagði að Dönum þættu þeir ekki vera útlendingar þegar þeir kæmu til Íslands, í ræðu sinni á Þingvöllum í dag. mbl.is/Hari

Fjallað er um boð Piu Kjærsgaard á hátíðarþingfundinn á Alþingi í danska fjölmiðlinum Politiken í kvöld. Þar segir meðal annars að margir hafi verið óánægðir með komu Kjærsgaard og ekki búnir undir það að hún kæmi og ávarpaði þessa hátíðarsamkomu.

Pia Kjærs­ga­ard stofnaði Danska þjóðarflokkinn árið 1995 en hörð stefna henn­ar og flokks­ins í inn­flytj­enda­mál­um hafði farið öf­ugt ofan í marga Dani en sýn henn­ar á mála­flokk­inn var fagnað af þeim sem voru í for­ystu sam­bæri­legra afla í Evr­ópu.

Hún hef­ur ít­rekað kom­ist í frétt­ir fyr­ir um­mæli sín um út­lend­inga m.a. lét hún þau orð falla í frétta­bréfi flokks­ins árið 2001 að múslim­ar væru fólk sem „lygi, svindlaði og blekkti“. Var hún kærð fyr­ir þessi um­mæli en sak­sókn­ari lét málið niður falla.

Í umfjöllun Politiken er bent á að Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, hafi gengið burt af þingpalli þegar Kjærsgaard hóf ávarp sitt. Einnig er fjallað um ákvörðun Pírata um að sniðganga fundinn í heild sinni. 

„Að okk­ar mati stend­ur hún fyr­ir hinni hliðinni á þess­ari tog­streitu sem nú er uppi í vest­rænu sam­fé­lagi milli frjáls­lyndra lýðræðis­gilda og þess sem kalla má „Trump-lega“ nálg­un,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata, í dag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sinni ræðu að allir þyrftu að lifa saman í sátt og samlyndi, sama hverrar trúar eða af hvaða uppruna fólk væri. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, talaði hins vegar um að það væri mikill heiður að hafa forseta danska þingsins á Þingvöllum.

Politiken ræðir við Árna Snævar sem segir að samfélagsmiðlar hafi logað eftir að fólk komst að því hverri hefði verið boðið til hátíðarhaldanna.

„Þetta hefur ekkert með Danmörku að gera en hefur allt með skoðanir Piu Kjærsgaard að gera,“ segir Árni. Hann telur að reiði almennings vegna komu Kjærsgaard sé að einhverju leyti hægt að tengja við reiði í garð íslensks stjórnmálafólks.

„Stjórnmálafólkið hefur veitt sjálfu sér háar launahækkanir og þessi hátíðarhöld voru dýr.“

Umfjöllun Politiken

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert