Drengirnir tólf og fótboltaþjálfari þeirra, sem voru innlyksa í hellinum á Taílandi dögum saman, verða útskrifaðir af sjúkrahúsi í dag. Þeir munu af því tilefni ræða við fjölmiðla, segir talsmaður stjórnvalda þar í landi.
Hópurinn verður útskrifaður degi fyrr en til stóð. Að loknum blaðamannafundi munu þeir loks geta snúið aftur til síns heima.
„Ástæðan fyrir því að við höldum þennan blaðamannafund er að fjölmiðlar geti spurt þá spurninga og eftir það geti þeir farið að lifa sínu venjulega lífi án truflunar frá fjölmiðlum,“ segir Sunsern Kaewkumnerd, talsmaður taílenskra stjórnvalda, við AFP-fréttastofuna.
Sérfræðingar hafa varað við því að drengirnir og þjálfarinn gætu átt eftir að fá áfallastreituröskun eftir að hafa verið innlyksa og í lífshættu í Tham Luang-hellinum í norðurhluta Taílands. Því munu læknar fylgjast náið með framgangi blaðamannafundarins.
Blaðamenn sem viðstaddir verða urðu að skila spurningum fyrir fram og geðlæknir mun svo fara yfir þær og meta hvort óhætt sé að spyrja þeirra.
Frá fundinum verður sýnt í beinni útsendingu og mun hann standa í 45 mínútur. „Þeir fara líklega heim strax í kjölfar fundarins,“ segir Sunsern.
Blaðamenn hafa verið varaðir við því að spyrja óæskilegra spurninga sem gætu komið drengjunum úr jafnvægi eða valdið þeim vanlíðan.
Drengirnir eru á aldrinum 11-16 ára. Læknar hafa ráðlagt foreldrum þeirra að banna öll samskipti þeirra við fjölmiðla í að minnsta kosti einn mánuð eftir heimkomuna.
Hópurinn er sagður við góða heilsu en áfallið gæti átt eftir að koma síðar að mati lækna.