Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag að það væri ekki of seint að „bjarga Brexit“. Hann gagnrýndi einnig Theresu May forsætisráðherra fyrir hálfkák í málinu.
Johnson, sem sagði af sér sem ráðherra fyrir tíu dögum, sagði að nýjustu áætlanir May gerðu það að verkum að Bretar væru í óþarfa óvissu.
Breska ríkisstjórnin náði samkomulagi í byrjun mánaðarins um hvernig hún sér fyrir sér framtíðarsamband sitt við Evrópusambandið eftir Brexit. Þar kom meðal annars fram að stjórnin leitast eftir því að gera fríverslunarsamning við Evrópusambandið á sviði iðnaðar- og landbúnaðarframleiðslu. Stjórnin styður auk þess sameiginlegt tollasvæði.
Í kjölfar þessa samkomulags sögðu Johnson og David Davis, ráðherra útgöngumála í bresku ríkisstjórninni, af sér.
„Það er ekki of seint að bjarga Brexit. Við verðum að taka þá ákvörðun að hafa trú á þessu landi vegna þess að aðdáendur okkar um allan heim bíða þess að við tökum aftur stjórnina,“ sagði Johnson meðal annars.