Hinn risavaxni borgarísjaki sem lónar fyrir utan smáþorpið Innaarsuit á vesturströnd Grænlands hefur fangað athygli heimsbyggðarinnar. Nú hefur grænlenska ríkissjónvarpið birt myndband sem sýnir ferðir jakans á laugardag en þar sem búið er að hraða upptökunni er myndbandið aðeins um hálf mínúta að lengd.
Um helgina færðist borgarísjakinn, sem lónað hefur skammt frá þorpinu, um 500-600 metra til norðurs vegna mikils vinds og hástreymis.
Óttast er að stórir jakar muni brotna frá borgarísjakanum og valda flóðbylgju. Í gær var hættusvæðið sem skilgreint hafði verið við strönd þorpsins minnkað og flestir íbúarnir gátu snúið aftur til síns heima. Enn er þó bannað að vera allra næst ströndinni.