Musk biðst afsökunar

Frumkvöðullinn Elon Musk hefur beðið breskan kafara afsökunar á því að hafa kallað hann barnaníðing á Twitter.

Musk kallaði hellakönnuðinn og kafarann Vernon Unsworth „pedo guy“ í færslu sinni eftir að kafarinn, sem kom að björgun drengjanna úr hellinum á Taílandi, hafði sagt Musk athyglissjúkan. 

Musk hafði boðið björgunarteyminu lítinn sérútbúinn kafbát til björgunarinnar. Það var afþakkað. 

„Hans gjörðir gagnvart mér réttlæta ekki gjörðir mínar gagnvart honum og þess vegna bið ég herra Unsworth afsökunar sem og fyrirtækin sem ég leiði,“ skrifaði Musk á Twitter en hann er forstjóri Tesla og SpaceX. „Þetta er mér að kenna og aðeins mér.“  

„Pedo“ er stytting á orðinu „paedophile“ sem þýðir barnaníðingur. Unsworth sagðist vera að íhuga málsókn gegn Musk vegna ummæla hans.

Elon Musk.
Elon Musk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert