Knattspyrnudrengirnir tólf sem bjargað var úr Tham Luang-hellakerfinu og þjálfari þeirra sátu fyrir svörum á blaðamannafundi nú fyrir skömmu. Þeir sögðust hafa skipst á að grafa í veggi hellisins og deildu ekki um hverjir þeirra ættu að fara fyrstir út vegna þess hve nánir þeir eru. Allir segjast þeir vilja biðja foreldra sína afsökunar. The Guardian greinir frá.
Sálfræðingur segir líkamlega og andlega heilsu drengjanna vera „nokkuð góða“ og blaðamenn viðstaddir fundinn lýstu því að drengirnir virtust rólegir og glaðir til marks um það hve fegnir þeir væru að hafa verið bjargað úr hellinum.
Inntur eftir því hvers vegna þeir hafi farið inn í hellinn sagði þjálfari liðsins, Ake, að þeir hafi allir sammælst um að fara inn í hellinn. „Við höfðum aldrei farið í helli áður,“ segir hann. Þeir hafi séð vatn flæða inn og þá hugsað um að yfirgefa hellinn. Á leiðinni til baka hafi þeir svo séð að þeir voru fastir. „Við erum allir syndir. Það er ekki rétt að við séum ekki syndir. Eftir fótboltaæfingar förum við oft og gerum æfingar í vatni,“ segir þjálfarinn.
„Við áttuðum okkur ekki á því hve hátt yfirborð vatnsins gæti risið,“ segir hann. Þegar einn drengjanna hafi öskrað hvort þeir væru týndir fullvissaði Ake þá um að þeir væru ekki týndir og kæmust út með reipum.
Ake segir að drengirnir hafi reynt að grafa sig út í fyrstu. „Ég sagði þeim að vera ekki hræddir, því yfirborð vatnsins myndi lækka daginn eftir,“ segir Ake. „Á þeirri stundu vorum við ekki hræddir, því við héldum að yfirborðið myndi lækka og einhver kæmi að bjarga okkur.“ Þeir hafi drukkið hreint vatn úr veggjum hellisins og skipst á að grafa holur í veggina.
Drengirnir minntust kafarans sem lést við björgunina, Saman Kunan, og skrifuðu fjölskyldu hans bréf þar sem þeir þökkuðu honum fyrir.
Þjálfari liðsins sagði að það helsta sem hann hafi lært af atburðinum sé hve ómælda virðingu hann ber fyrir góðmennsku allra. „Við þurfum að fara varlegar og gæta að því sem við gerum í frístundum,“ segir hann við fjölmiðla.
Einn drengjanna sagði atburðinn hafa verið óvænta lífsreynslu sem hafi kennt honum að lifa lífi sínu ekki kæruleysislega. „Héðan af mun ég lifa lífi mínu gætilega,“ sagði hann. Annar segir reynsluna hafa kennt honum að meta líf sitt að verðleikum.
Þjálfarinn sagði drengina ekki hafa deilt um það hver kæmist fyrstur út úr vellinum þegar björgun barst. Enginn þeirra hafi viljað flýta sér út á undan öðrum vegna þess hve nánir þeir séu.
Aðspurðir hvað þeir vilji segja við foreldra sína svara drengirnir einróma að þeir vilji biðja þá afsökunar. Margir benda á að þeir hafi ekki sagt foreldrum sínum að þeir ætluðu að fara í hellinn heldur aðeins að þeir væru að fara á fótboltaæfingu.
Læknir á fundinum sagði nauðsynlegt að drengirnir fengju nú tíma án truflunar með fjölskyldum sínum og að fjölmiðlar létu þá í friði. Sálfræðingur tók í sama streng og sagði truflanir raska möguleikum þeirra á venjulegu lífi.
Fréttin hefur verið uppfærð.