Dómur í máli sem Cliff Richard höfðaði á hendur BBC fyrir að ryðjast inn í einkalíf sitt gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjölmiðla. Framvegis verður ekki auðvelt að nafngreina fólk sem liggur undir grun eða sætir rannsóknum hjá lögreglu.
Það var tárvotur Sir Cliff Richard sem yfirgaf dómshúsið í Lundúnum í vikunni eftir að breska ríkisútvarpið, BBC, hafði verið dæmt í undirrétti til að greiða söngvaranum skaðabætur vegna umfjöllunar um að lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri hefði framkvæmt húsleit á heimili hans fyrir fjórum árum vegna gruns um barnaníð. Rannsóknin leiddi ekki til ákæru. „Ég á ekki orð. Ég trúi þessu ekki. Þetta eru dásamlegar fréttir,“ sagði Richard þegar dómurinn hafði verið upp kveðinn. Fyrir utan tók hópur aðdáenda á móti sínum manni með gamla slagarann „Congratulations“ á vörum.
Í máli dómarans kom fram að Richard ætti rétt á einkalífi og að BBC hefði brotið á þeim rétti án þess að lagaleg réttlæting væri fyrir hendi. „Þetta var gert með alvarlegum hætti og með nokkrum gauragangi. Ég hafna þeim rökum BBC að það hafi haft rétt til að segja fréttina í skjóli tjáningarfrelsis og frelsis fjölmiðla,“ sagði hann við dómsuppkvaðninguna.
Samkvæmt dómnum þarf BBC að punga út um 210 þúsund sterlingspundum, andvirði þrjátíu milljóna króna, vegna fréttaflutningsins en stofnunin er mögulega ekki búin að bíta úr nálinni með þetta mál enda gæti Richard í framhaldinu höfðað annað mál vegna tekjutaps, meðal annars vegna tónleika sem aldrei urðu og bókasamnings sem var rift.
Lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri hafði áður greitt Richard skaðabætur að andvirði um 60 milljóna króna, án aðkomu dómstóla.
Lögmaður Richards, Gideon Benaim, fagnaði niðurstöðunni að vonum en hann hefur verið mjög harðorður í garð BBC og sagt að söngvarinn hafi aldrei búist við því, eftir sex áratugi í sviðsljósinu, að einkalíf hans og mannorð yrði dregið niður í svaðið með þessum hætti. Undarlegt hafi verið að fylgjast með BBC verja og réttlæta fréttina og hanga á „skúbbinu“ sínu.
Dómurinn gæti haft mikil áhrif á umfjöllun breskra fjölmiðla um lögreglurannsóknir í framtíðinni en bæði ritstjórar og lögmenn dagblaða í Bretlandi voru sammála um það í vikunni að hann væri ígildi nýrrar löggjafar. BBC, sem ætlar að áfrýja dómnum, varaði við því í framhaldinu að hann kæmi til með að binda hendur fjölmiðla, þegar kemur að því að nafngreina fólk sem liggur undir grun eða sætir rannsókn í sakamálum.
Dómarinn snupraði BBC meðal annars fyrir að birta fréttina án viðbragða frá Richard sjálfum í þeim tilgangi að vera á undan keppinautum sínum. Yfirdrifið hefði einnig verið að leigja þyrlu til að fljúga yfir heimili söngvarans og ekki í neinum takti við aðgerðirnar sem voru í gangi. Að mati dómarans fólst stærsta brotið þó í því að nafngreina Richard og upplýsa almenning um að hann væri sá sem sætti rannsókn.
Eftir að dómurinn gekk spurði íhaldsþingkonan Anna Soubry, sem í eina tíð var blaðamaður, Theresu May forsætisráðherra í neðri deild þingsins hvort tímabært væri fyrir stjórnvöld að setja lög, svokölluð Cliff-lög, sem hreinlega bönnuðu fjölmiðlum að birta nöfn grunaðra brotamanna þangað til ákæra væri komin fram. Í svari May kom fram að það væri snúið mál þar sem nafngreining gæti hvatt fleiri vitni til að gefa sig fram.
Fran Unsworth, fréttastjóri BBC, bað Richard afsökunar eftir að dómurinn gekk og viðurkennir að stofnunin hefði mátt haga sér öðruvísi í einstökum þáttum málsins. „Við hörmum þjáningarnar sem Sir Cliff hefur mátt líða. Við skiljum að þetta mál hefur haft djúpstæð áhrif á hann. Dómarinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ólöglegt var að nafngreina Sir Cliff. Það hefði ekki breytt niðurstöðu hans þótt við hefðum ekki notað þyrlu og slegið fréttinni upp með svona afgerandi hætti. Gildir þá einu að við fórum með rétt mál,“ sagði hún og á þar við að söngvarinn hafi sannarlega sætt rannsókn enda þótt grunurinn hafi ekki verið á rökum reistur.
Hafandi sagt það varaði Unsworth við afleiðingum dómsins. „Það er okkar skoðun að þetta samrýmist ekki almennu tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla, sem þessi þjóð hefur haft að leiðarljósi gegnum tíðina. Af þeim sökum er mikið prinsipp hér í húfi.“
Tony Gallagher, ritstjóri The Sun, tók í svipaðan streng. „Ekki verður greint frá handtökum. Grunaðir munu njóta vafans. Lögreglurannsóknir verða hindraðar. Þetta er sigur fyrir (meinta) glæpamenn og fjárgráðuga lögmenn. Hræðilegt fyrir fjölmiðla.“
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.