Skógareldarnir sem nú geisa í Svíþjóð eru þeir stærstu í landinu í yfir 40 ár, að sögn almannavarna Svíþjóðar. Slá þeir því við skógareldum í Västmanland frá árinu 2014 en þá brunnu 150 ferkílómetrar skógar.
Stærstu eldarnir eru sem fyrr í Gävleborg, Jamtlandi, Örnsköldsvík og Dölunum en nú seinni partinn logaði á 61 stað í landinu, samkvæmt upplýsingum frá sænsku neyðarlínunni. Erfiðlega hefur gengið að hafa hemil á eldinum og hefur hann raunar breiðst út frá í gærkvöldi þegar logaði á 45 stöðum.
Íbúar Huskölen, Finneby, Gällö, Högbränna, Tallberg, Hanåsen, Binnäset och Björnsjövallen eru hvattir til að yfirgefa heimili sín auk þess sem fleiri bæir hafa þegar verið rýmdir.
Töluvert hefur þó áunnist á síðustu dögum, en þegar verst lét á þriðjudag logaði á áttatíu stöðum í ríkinu.
Enn fjölgar í hópi Evrópulanda sem senda starfsmenn og búnað til landsins. Tvær franskar flugvélar, fimm þýskar þyrlur og ein litáensk eru komnar til starfa. Þá hafa tvær ítalskar þyrlur verið við slökkvistörf í nokkra daga.
Svíþjóð er ekki aðildarríki Nato, en á í nánu samstarfi við bandalagið á ýmsum vettvangi og gæti því óskað eftir að baráttunni við skógareldana væri stýrt frá samhæfingarmiðstöð NATO. Sænsk stjórnvöld hafa þó ekki óskað þess.