Fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Robert Mugabe í Simbabve hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir spillingu.
Hinn 62 ára gamli Samuel Undenge var ráðherra orkumála. Hann mun dvelja bak við lás og slá í tvö og hálft ár en eitt og hálft ár var skilorðsbundið.
Hann er fyrsti ráðamaðurinn frá tíma Mugabe til að verða dæmdur síðan Emmerson Mnangagwa tók við embætti forseta í landinu eftir valdarán hersins.
Tilraun Mugabe til þess að gera eiginkonu sína að eftirmanni sínum í forsetaembættinu varð kveikjan að valdaráni hersins seint á síðasta ári, sem setti af stað rás atburða sem að endingu lauk með afsögn Mugabes.
Mnangagwa hefur lýst því yfir að ríkisstjórn hans muni ekki líða neina spillingu. Gagnrýnendur hans segja að hann hafi lítið gert í þeim málum, þótt nokkrir ráðherrar úr ríkisstjórn Mugabe hafi verið handteknir.