140 pólskir slökkviliðsmenn á 44 bílum eru komnir til Svíþjóðar til að aðstoða í baráttunni við skógarelda sem geisa í landinu.
Bílarnir komu með skipi til Trelleborgar á suðurströnd Svíþjóðar í morgun en þaðan keyra þeir að Bräcke í Jamtlandi þar sem stórir eldar loga.
Nokkur árangur hefur náðst í baráttunni við eldana að undanförnu, en í morgun logaði á 44 stöðum í ríkinu, um helmingi minna en þegar mest lét.
Í samtali við sænska miðilinn P4 Gävleborg segir Peter Arnevall, sem stýrir aðgerðum slökkviliðsins, að Helsingjaland sé í forgangi en stærsti eldurinn er við þorpið Kårböle í Helsingjalandi. Þar eru ítalskar og franskar sveitir að störfum og danskir slökkviliðsmenn á leiðinni. Norskar þyrlur sinna hins vegar Jamtlandi og Gävleborg.
Sænsk stjórnvöld hafa notið liðsinnis slökkviliða frá þónokkrum Evrópulöndum, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Litháen og Noregi en stjórnvöld í Svíþjóð óskuðu fyrr í vikunni eftir aðstoð Evrópusambandsríkja.
Fjöldi sjálfboðaliða aðstoðar einnig slökkviliðsmenn, til dæmis með því að sjá þeim fyrir mat.