Hætta að taka land af hvítum bændum

Mnangagwa hristir spaðann á hvítum Simbabvemanni á fundinum í dag.
Mnangagwa hristir spaðann á hvítum Simbabvemanni á fundinum í dag. AFP

Emmerson Mnangagwa forseti Simbabve kallar eftir því að svartir og hvítir íbúar ríkisins sameinist í aðdraganda forsetakosninga í landinu. Hann hefur gefið út að hætt verði að jaka jarðir af hvítum bændum í landinu, en það var stefna sem forveri hans í starfi, Robert Mugabe, studdi.

Undir stjórn Mugabe voru hundruðir hvítra bænda í Simbabve sviptir lífsviðurværi sínu og landi, þar sem ríkisstjórnin sagðist vera að taka til baka jarðir sem hvítir aðkomumenn hefðu tekið á ósanngjarnan hátt.

Mnangagwa sagði hins vegar að þessi stefna tilheyrði nú fortíðinni og ekki ætti lengur að spá í því hvort bændur sem eiga jarðir væru svartir eða hvítir.

„Það er glæpsamlegt að tala um það,“ sagði Mnangagwa á kosningafundi í Harere í dag. Hann sagði að svartir bændur og hvítir bændur væru allir simbabveskir bændur og það væri það sem skipti máli. Ríkisstjórn hans væri sama um húðlit fólks.

Forsetakosningarnar í landinu fara fram 30. júlí.
Forsetakosningarnar í landinu fara fram 30. júlí. AFP

Á fundinum í dag viðurkenndi forsetinn einnig að stefna stjórnvalda um að taka jarðir af hvítum bændum hefði misheppnast, en í frétt á vef BBC er hún sögð hafa stórskaðað landbúnað landsins.

Fiskar eftir atkvæðum hvítra íbúa

Talið er að þessi orð forsetans séu til þess fallin að minnka áhyggjur hvítra kjósenda, nú í aðdraganda forsetakosninganna sem fram fara 30. júlí. Það verða fyrstu kosningarnar eftir að Robert Mugabe hrökklaðist úr embætti forseta í nóvember síðastliðnum, eftir 37 ára valdaskeið.

Hvítir kjósendur í Simbabve hafa í gegnum tíðina kosið stjórnarandstöðuflokka á borð við MDC (Movement for Democratic Change) en ekki flokk forsetans, Zanu-PF, sem Mugabe tilheyrði einnig.

Mnangagwa lyftir fótbolta í óræðum tilgangi fyrir fundinn í dag.
Mnangagwa lyftir fótbolta í óræðum tilgangi fyrir fundinn í dag. AFP

BBC segir að 23 forsetaframbjóðendur verði líklega á kjörseðlinum 30. júlí og að Mnangagwa sé talinn sigurstranglegastur. Þó er bent á að hann eigi sér óvini, bæði fyrir að steypa fyrrverandi lærimeistara sínum, Mugabe, af forsetastóli og fyrir að hafa áður framfylgt stefnu hans.

Hvað gerir unga fólkið?

Nelson Chamisa, formaður MDC-flokksins er talinn líklegastur til að ógna forsetanum. Hann er fertugur lögmaður og prestur og þykir vinsæll, sérstaklega á meðal ungs fólks og atvinnulausra.

Atkvæði ungs fólks eru sögð skipta miklu í komandi kosningum, en meira en helmingur íbúa í Simbabve eru undir 25 ára gamlir og 43,5% skráðra kjósenda eru undir 35 ára aldri.

Umfjöllun BBC sem vísað er til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert