Franski herinn til aðstoðar í Svíþjóð

Skógareldar geisa víða í Svíþjóð.
Skógareldar geisa víða í Svíþjóð. AFP

Tugir franskra hermanna sem eru sérhæfðir í slökkvistarfi komu til Svíþjóðar í nótt en þeir muni veita aðstoð í baráttunni við skógarelda sem þar geisa.

Í gær geisuðu um fimmtíu eldar í Svíþjóð en þar er mjög þurrt vegna hitabylgjunnar sem hefur verið þar í landi, sem og annars staðar í Skandinavíu í sumar. Ekki hefur verið jafnheitt í Svíþjóð í meira en öld. 

Alls koma 60 franskir hermenn til Svíþjóðar, helmingur þeirra kom til Stokkhólms í nótt en hinir koma síðar í dag.

Hluti hópsins sem kominn er til Svíþjóðar.
Hluti hópsins sem kominn er til Svíþjóðar. AFP

Frakkar hafa þegar sent tvær Canadair-flugvélar til Svíþjóðar en sænska ríkisstjórnin óskaði eftir aðstoð Evrópusambandsins við að berjast við elda.

Ítölsk yfirvöld hafa einnig sent tvær flugvélar og Norðmenn hafa sent átta þyrlur á vettvang. Þjóðverjar og Pólverjar hafa einnig svarað kalli Svía eftir aðstoð.

Hitinn hefur ekki verið jafnmikill í Svíþjóð í manna minnum en í Uppsala hefur hann farið upp í 33 gráður. Nánast ekkert hefur rignt í Svíþjóð frá því í byrjun maí fyrir utan 13 mm sem féllu um miðjan júní.

Staðan er svipuð í Finnlandi, Danmörku og Noregi og virðist ekkert lát ætla að vera á hitabylgjunni.

Franskir hermenn munu veita Svíum aðstoð í baráttunni við skógareldana.
Franskir hermenn munu veita Svíum aðstoð í baráttunni við skógareldana. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert