Barátta upp á líf og dauða

Skógareldar í Grikklandi undanfarna daga hafa kostað að minnsta kosti tuttugu mannslíf samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn landsins. Grikkir hafa óskað eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins í baráttunni við eldana.

Hundruð slökkviliðsmanna eru að störfum við slökkva eldana en fólk hefur þurft að yfirgefa heimili sín í nágrenni höfuðborgarinnar, Aþenu.

Í frétt BBC kemur fram að leit standi yfir að tíu ferðamönnum sem flúðu undan eldinum á bát.

„Við gerum allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að ná tökum á þessu,“ sagði Alexis Tsipras, forsætisráðherra á fundi með fréttamönnum en hann batt enda á opinbera heimsókn sína í Bosníu vegna skógareldanna. 

Að sögn slökkviliðsmanna er gríðarlega erfitt að ná yfirtökum á eldinum en flestir þeirra 20 sem vitað er að eru látnir lokuðust inni í strandbænum Mati, sem er 40 km norðaustur af Aþenu. Hefur fólkið fundist látið á heimilum sínum og bílum. Vitað er um að 104 hafi slasast, þar af 11 alvarlega að sögn talsmanns ríkisstjórnarinnar, Dimitris Tzanakopoulos. Af þeim slösuðu eru 16 börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert