Hundruða saknað eftir að stífla brast

google

Hundruða er saknað og fjölmargir eru taldir látnir eftir að stífla við vatnsaflstöð í suðausturhluta Laos brast í gær. Ríkisfjölmiðlar í Laos greindu frá þessu í dag en óhappið varð í gærkvöldi. 

Við það leystust úr læðingi fimm milljarðar rúmmetra vatns og er vitað að einhverjir drukknuðu og margra er saknað en vatnsflaumurinn fór yfir sex þorp í nágrenninu. Yfir sex þúsund manns misstu heimili sín í flóðunum. 

Ekki hefur verið upplýst um hvað varð til þess að stíflan brast en orkufyrirtækið Xe Pien-Xe Namnoy (PNPC) reisti stífluna í Attapeua-héraði. 

Forsætisráðherra Laos, Thongloun Sisoulith, hefur frestað ríkisstjórnarfundi og er farinn á hamfarasvæðið ásamt embættismönnum og fulltrúum almannavarna. Sveitarstjórnin hefur óskað eftir aðstoð ríkisins við að koma neyðaraðstoð til fórnarlambanna, svo sem fatnaði, mat, drykkjarhæfu vatni og lyfjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert