Sjóðandi hiti um alla Evrópu

Slökkviliðsmenn að störfum í Grikklandi.
Slökkviliðsmenn að störfum í Grikklandi. AFP

Sjóðandi hiti varð til þess að mannskæðustu skógareldar Evrópu á þessari öld brutust út í Grikklandi. Sömu sögu er að segja norðar í álfunni þar sem hitamet hafa fallið eitt af öðru. 

Tíu lönd Evrópusambandsins hafa sent slökkvilið til að berjast við skógarelda sem nú loga í Grikklandi, Svíþjóð og Lettlandi.

Hér að neðan fer samantekt á ástandinu.

Grikkland

Skógareldarnir sem kviknuðu í Grikklandi á mánudag eru þeir mannskæðustu í landinu í manna minnum. Að minnsta kosti 82 eru látnir og enn er leitað að um þrjátíu manns sem er saknað. Níu ára gamlar tvíburasystur eru meðal þeirra sem saknað er. 

 Strandbæir í nágrenni Aþenu hafa orðið hvað verst úti og að minnsta kosti 300 heimili hafa brunnið til grunna eða eru stórskemmd.

Svíþjóð

Í Svíþjóð geisa nú fordæmalausir þurrkar og þar hefur hitinn nú ekki mælst hærri í heila öld. Enn er barist við skógarelda á 23 stöðum víðsvegar í landinu. Eldarnir hafa eyðilagt að minnsta kosti 25 þúsund hektara lands. Karbole hefur orðið verst úti en þar hafa 13 þúsund hektarar lands brunnið.

Sænsku skógarnir eru illa brunnir eftir skógareldana.
Sænsku skógarnir eru illa brunnir eftir skógareldana. AFP

Enn er hitastigið í Svíþjóð að hækka og Pierre Schaller, sem fer fyrir franska björgunarteyminu sem komið er til aðstoðar, segir að í dag sé spáð 34°C og óttast að eldarnir, sem ákveðnum tökum hafði veri náð á, brjótist út á fleiri stöðum. 

Hins vegar eru góðu fréttirnar þær að um helgina er spáð rigningu. Þá munu tvær ítalskar slökkviflugvélar, sem verið hafa að störfum í landinu síðustu daga, fljúga til Grikklands. 

Lettland

Þyrla frá Hvíta-Rússlandi er á leið til Lettlands til að hjálpa slökkviliðum þar, sem áður höfðu fengið aðstoð frá Litháum, við að berjast við skógarelda sem brutust út 17. júlí. 

Eldarnir hafa sviðið 1.000 hektara lands, m.a. baunaakra og skóga. Lettar báðu ESB um aðstoð en allt tiltækt lið þeirra er að störfum í Grikklandi og Svíþjóð. Því leituðu þeir til Hvíta-Rússlands. 

Fólk þyrpist á ströndina í Marseille í Frakklandi.
Fólk þyrpist á ströndina í Marseille í Frakklandi. AFP

Bretland

Langdregnasta hitabylgja í áratugi gengur nú yfir Bretland. Gróðureldar hafa kviknað í norðvesturhluta landsins og í Norður-Írlandi er vatn nú skammtað. Hitamet hafa fallið í Skotlandi.

Talið er að hitamet frá árinu 2003 muni falla á morgun þegar spáð er yfir 38 stiga hita. 

Holland

Veðurstofan í Hollandi varaði nýverið í fyrsta sinn í þrjú ár við hitabylgju í landinu. Þar hefur hitinn þegar farið í 36 stig. Hitabylgjan hefur þegar staðið í tólf daga. Yfirvöld búast við vatnsskorti í ákveðnum landshlutum.

Barn kælir sig í gosbrunni í Berlín.
Barn kælir sig í gosbrunni í Berlín. AFP

Önnur svæði Evrópu

 Miklir hitar eru einnig í Noregi. Maí í ár er sá heitasti þar frá því að mælingar hófust og á morgun er því spáð að hitamet falli. 

Þá hafa Finnar einnig upplifað mikla hita, m.a. í Lapplandi sem margir telja heimaslóðir jólasveinsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka