Alvarlegar grunsemdir eru uppi um að eldurinn, sem var 83 manns að bana hið minnsta í strandbænum Mati í Grikklandi hafi verið af völdum íkveikju. Þetta hefur BBC eftir Nikos Toskas ráðherra almannavarna.
Eldarnir brutust út á mánudagskvöld og hafa orðið að minnsta kosti 83 manns að bana. Bílar og hús hafa brunnið til kaldra kola. Um mannskæðustu skógarelda í nútímasögu Evrópu er að ræða.
Fólk reyndi að flýja eldana ýmist á hlaupum eða í bílum sínum og 26 manns, sem ekki tókst að komast undan, fundust í faðmlögum í húsi í strandbænum Mati um 40 kílómetrum norðaustur af Aþenu.
60 manns hljóta enn aðhlynningu á sjúkrahúsum eftir eldana og 11 eru á bráðadeild. Tuga er enn saknað og hafa björgunarsveitir leitað í klettum í nágrenni strandbæjarins Mati að líkum.
Varnarmálaráðherra Grikklands, Panos Kammenos, sagði fyrr í dag að ein af ástæðum þess að afleiðingar skógareldanna í landinu séu jafn alvarlegar og raun ber vitni, séu ólöglegar byggingarframkvæmdir sem meðal annars loki flóttaleiðum.
Kammenos ræddi við BBC í dag um skógareldana sem hafa kostað að minnsta kosti 81 mannslíf og gríðarlegt eignartjón. Hann kom til strandbæjarins Mati í dag þar sem ævareiðir íbúar sökuðu stjórnvöld um að hafa ekki sinnt forvörnum. Ef það hefði verið gert hefði manntjónið orðið mun minna að þeirra sögn.