Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, tók í dag pólitíska ábyrgð á gróðureldunum sem kviknuðu á mánudagskvöld í og við Aþenu og sem kostað hafa 87 manns hið minnsta lífið.
Þriggja daga þjóðarsorg var líst yfir í Grikklandi eftir eldana og lauk sorgartímabilinu í dag. Stjórnarandstaðan beið ekki boðana og sakaði stjórnvöld í dag um að hafa brugðist því hlutverki sínu að vernda íbúa og fyrir að hafa ekki beðist afsökunar á hörmungunum.
Tsipras sagði ráðherrum sínum á fundi í dag að hann væri á báðum áttum með það hvort að stjórnvöld hefðu gert allt sem í þeirra valdi stóð. „Ég hef boðað ykkur hingað í dag til að taka fulla pólitíska ábyrgð á þessum hörmungum fyrir stjórnina og alla grísku þjóðina,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Tsipras.
„Ég leyni því ekkert að tilfinningar mínar eru blendnar. Sársauki vegna eyðileggingarinnar og þeirra sem létust óvænt og á svo ósanngjarnan hátt, en einnig angist yfir því hvort að við brugðumst rétt við.“
Ráðherra almannavarna, Nikos Toskas sagði fréttamönnum í gær að stjórnvöld grunaði að um íkveikju hafi verið að ræða.
Bílar og hús hafa brunnið til kaldra kola. Margir flúðu niður að strönd til að forðast eldtungur og gríðarlegan reyk sem frá eldunum stafaði. 26 manns, sem ekki tókst að komast undan, fundust í faðmlögum í húsi í strandbænum Mati um 40 kílómetrum norðaustur af Aþenu.
Margra er enn saknað, en um mannskæðustu skógarelda í nútímasögu Evrópu er að ræða.
Tsipras bíða nú spurningar um það hvernig svo margir gátu lokast inni í eldunum, en forsætisráðherrann hafði þar til í dag ekki sést opinberlega frá því á þriðjudag er hann lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg.
Gagnrýni stjórnarandstöðunnar endurspeglar reiði margra þeirra sem lifðu eldana af. „Þeir skildu okkur eftir til að brenna eins og mýs,“ hefur Skai sjónvarpsstöðin eftir einum þeirra sem komust undan eldunum í Mati. „Engin kom hingað til að biðjast afsökunar eða segja af sér, ekki neinn.“
Toskas segist hafa boðist til að segja af sér, en að Tsipras hafi hafnað afsögn hans.