Hinir gríðarlegu þurrkar og skógareldar sem geisað hafa í Svíþjóð vikum saman hafa eyðilegt mikilvæg beitilönd hreindýra sama. Hætta stafar þegar að lífsháttum samanna vegna námugraftar og skógarhöggs sem og loftslagsbreytinga sem þegar er farið að gæta á heimskautasvæðum.
„Vetrarlandið okkar er að brenna,“ segir Jonas Kraik, 54 ára hreindýrasmali í Jämtlandi. Um 8.000 hreindýra hjörð hans og annarra íbúa er vinsæl meðal ferðamanna í miðhluta Svíþjóðar.
Jämtland er það svæði sem hefur orðið einna verst úti í skógareldunum og annar hjarðmaður, Edvin Esberg, segist hafa tapað um 6.000 hekturum beitarlands. „Við höfum miklar áhyggjur af eldunum og við getum ekki lagt mat á skemmdirnar vegna reyksins,“ segir hann. „Ég efast um að það verði nokkuð að bíta fyrir hreindýrin í vetur.“
Samar hafa búið í norðurhluta Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Rússlands í þúsundir ára. Þeir eru þeir einu sem mega reka hreindýrahjarðirnar um Svíþjóð.
Talið er að samar séu á bilinu 80-100 þúsund í löndunum fjórum. Samarnir lifa margir hverjir á því að nýta og selja kjöt, skinn og horn hreindýranna.
Á hverju hausti eru hjarðirnar reknar á vetrarsvæðin til beitar.
Margret Fjellström, hreindýrabóndi í fjallaþorpinu Dikanas um 800 kílómetra norður af Stokkhólmi, segist hafa verið heppin að sleppa við skógareldana. Hins vegar hafa miklir þurrkar verið viðvarandi um langa hríð og segir hún það hafa haft áhrif á dýrin. „Það er gríðarlega heitt uppi í fjöllunum. Kálfarnir ofþorna og verða of veikburða til að elta mæður sínar.“
Nær ekkert hefur rignt í Svíþjóð frá því í byrjun maí, fyrir utan nokkurra millimetra úrkomu sem féll um miðjan júní.
Í Skandinavíu er sumarhitinn venjulega í kringum 20-23 gráður og nú, þegar hitabylgja hefur verið á svæðinu vikum saman, hefur komið í ljós að yfirvöld eru illa í stakk búin til að fást við þær hamfarir sem fylgt hafa þurrkum og hita. Þannig hafa Svíar leitað á náðir Ítala, Þjóðverja, Pólverja og nágranna sinna í Noregi og Danmörku eftir hjálp við að berjast við skógareldana.
Marcus Rensberg, sem á um 5.000 hreindýr, býr í Alvdal norðvestur af Stokkhólmi. Hann bauðst til að aðstoða yfirvöld við slökkvistarfið en um 4.000 hektarar af beitilandi hans urðu eldunum að bráð. „Það gæti tekið allt að þrjátíu ár að endurheimta fyrri landgæði,“ segir hann hóstandi. „Það brennur alls staðar í kringum mig,“ segir hann við blaðamann AFP-fréttastofunnar áður en hann leggur símann á til að halda áfram að sinna slökkvistörfum.
Í Svíþjóð eru um 4.600 hreindýrabændur og eiga þeir samtals um 250 þúsund hreindýr. Þurrkarnir og skógareldarnir nú bætast við þau krefjandi verkefni sem þegar steðja að sömum. Sífellt meira af landi þeirra er tekið undir námugröft, skógarhögg og undir vindmyllugarða.
Þá hafa loftslagsbreytingar gert það að verkum að erfiðlega gengur að finna fléttur og skófir fyrir dýrin að éta sem eru mikilvægur hluti af fæðu þeirra. Því hafa samarnir þurft að kaupa meira af tilbúnu fóðri en áður. „Síðasti vetur var mjög erfiður,“ segir Fjellström. „Það var erfitt fyrir hreindýrin að grafa eftir fæðu í snjónum.“
Og á næstu vikum mun koma í ljós hversu miklar skemmdir urðu á beitarlöndunum í skógareldunum. „Hreindýrin munu fara eitthvað... en ég veit bara ekki hvert,“ segir Marcus Rensberg.