Páfi fellst á afsögn McCarricks

Kardínálinn Theodore McCarrick er sakaður um að hafa kynferðislega áreitt …
Kardínálinn Theodore McCarrick er sakaður um að hafa kynferðislega áreitt táning er hann var prestur. Hann kveðst ekkert muna eftir atvikinu, en kirkjan telur það trúverðugt. AFP

Frans páfi hefur samþykkt afsögn kardínálans Theodore McCarrick, fyrrverandi erkibiskups Washington. McCarrick var í sumar sakaður um að hafa misnotað ungling kynferðislega fyrir tæpum 50 árum.

Þá hefur Vatíkanið leyst McCarrick frá öllum opinberum skyldustörfum þar til málið fer fyrir kirkjurétt. Forsvarsmenn kirkjunnar sögðu í síðasta mánuði að ásakanirnar á hendur McCarrick væru trúverðugar. Sjálfur kveðst hann hins vegar „alls ekki muna eftir“ hinni meintu misnotkun.

McCarrick var einn af æðstu embættismönnum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum og með hæst settu leiðtogum kirkjunnar til að vera ásakaður um kynferðisbrot.

„Frans páfi féllst á afsögn kardínálans og hefur fyrirskipað að hann hætti öllum störfum,“ segir í yfirlýsingu frá Vatíkaninu. Er McCarrick gert að halda sig innan dyra og lifa lífi bæna og iðrunar þar til kirkjuréttur hefur rannsakað ásakanirnar á hendur honum.

McCarrick er sakaður um að hafa beitt táning kynferðislegu ofbeldi er hann þjónaði sem prestur í New York snemma á áttunda áratugnum.

Það var núverandi erkibiskup New York, Timothy Dolan, sem lagði ásakanirnar fram í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert