10 látnir eftir öflugan skjálfta á Lombok

Maður virðir hér fyrir sér skemmdirnar eftir jarðskjálftann á Lombok …
Maður virðir hér fyrir sér skemmdirnar eftir jarðskjálftann á Lombok í morgun. 10 manns hið minnsta fórust í skjálftanum. AFP

10 eru látnir hið minnsta eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir indónesísku eyjuna Lombok, sem er vinsæll ferðamannastaður. Skjálftinn mældist 6,4 og reið hann yfir um sjö í morgun að staðartíma, eða um miðnætti að íslenskum tíma.

Lombok er um 40 km austur af Bali og er vinsæll viðkomustaður ferðamanna alls staðar að úr heiminum.

BBC hefur eftir indónesískum yfirvöldum að tugir hafi slasast og fjöldi bygginga sé skemmdur eftir skjálftann. Bandaríska jarðskjálftastofnunin segir upptök skjálftans hafa verið um 50 km norðaustur af borginni Mataram sem er á norðurhluta eyjarinnar.

Rúmlega 60 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið og var sá stærsti þeirra 5,7.

„Um 40 manns eru slasaðir og tugir húsa eru skemmdir,“ segir í yfirlýsingu frá Sutopo Purwo Nugroho, talsmanni indónesísku almannavarnastofnunarinnar.

„Við búumst við að talan eigi eftir að hækka af því að upplýsingasöfnun er ekki lokið,“ bætti hann við. „Áherslan nú er á leit og björgun.“

AFP-fréttastofan hefur eftir einu vitni að mikil ringulreið hafi ríkt í kjölfar skjálftans. „Jarðskjálftinn var mjög öflugur og allir heima hjá mér fylltust skelfingu. Við hlupum öll út,“ sagði hann. „Allir nágrannar mínir hlupu líka út og rafmagnið fór af.“

Jarðskjálftar eru algengir í Indónesíu.

Jarðskjálfti upp á 6,5 varð á eyjunni Súmötru árið 2016 sem kostaði tugi manns lífið og leiddi til þess að 40.000 manns urðu að yfirgefa heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert