5 farast í gróðureldum í Kaliforníu

Fimm eru nú látnir, þar af tvö börn, í miklum gróðureldum sem hafa neytt tugþúsundir til að yfirgefa heimili sín í norðurhluta Kaliforníu. Líkamsleifar sem fundust í gær í brunarústum húss eru taldar vera af konu og tveimur barnabarnabörnum hennar. Áður höfðu tveir slökkviliðsmenn farist í baráttunni við eldana.

Um 3.500 slökkviliðsmenn reyna nú að ráða niðurlögum eldanna sem kviknuðu á mánudag í nágrenni borgarinnar Redding þar sem 90.000 manns búa. Hvass­ir vind­ar í Shasta-sýslu þeyta eld­in­um upp í eins kon­ar „hvirfil­byls-elda“ sem rífa tré upp með rót­um og velta bíl­um um koll að því er BBC hef­ur eft­ir slökkviliðsmönn­um.

Eld­arn­ir, sem hafa fengið nafnið Carr-eld­arn­ir, hafa eyðilagt 500 bygg­ing­ar hið minnsta og eru þúsund­ir heim­ila í hættu. Slökkviliðsmenn hafa ein­ung­is náð stjórn á um 5% eld­anna til þessa, sem loga á 34.000 hekturum lands, svæði sem er um þrisvar sinnum stærra en San Francisco.

Um 38.000 manns hafa orðið að yf­ir­gefa svæðið sem Carr-eldarnir eru á.

Carr-eldarnir eru meðal á annars tugs elda sem nú loga víðs vegar um Kaliforníuríki og meðal 90 gróðurelda sem loga á svæðinu frá Texas til Oregon.

Eldarnir hafa valdið mikilli eyðileggingu í nágrenni Redding.
Eldarnir hafa valdið mikilli eyðileggingu í nágrenni Redding. AFP

Talaði við þau þar til eldurinn náði þeim 

Lögreglan í Redding greindi frá því í gær að hún væri að reyna að hafa uppi á 17 manns sem saknað er. Reuters-fréttastofan hefur eftir lögregluforingjanum Todd Cogle að fjöldinn sveiflist frá 12 og upp í 20. Sumir komi í leitirnar og tilkynnt séu um aðra sem saknað er í þeirra stað.

Dagblaðið Sacramento Bee segir að lík þeirra sem fundust í húsbrunanum hafi verið af hinni 70 ára Melody Bledsoe og tveimur barnabarnabörnum hennar, James Roberts sem var fjögurra ára og Emily Roberts sem var fimm ára. Afi barnanna og eiginmaður Melody, Ed Bledsoe, grét er hann rifjaði upp tilraun sína til að komast til þeirra. Hann hafði skroppið út að erinda og á meðan kom eldurinn upp að húsinu.

Hann talaði við þau í síma á meðan hann reyndi að ná til baka. „Ég talaði við þau þar til eldurinn náði þeim,“ segir hann. „Ég var að reyna að ná til þeirra. Ég var að reyna að komast að eldinum.“

Um 3.500 slökkviliðismenn reyna að ráða niðurlögum eldanna.
Um 3.500 slökkviliðismenn reyna að ráða niðurlögum eldanna. AFP

Gróðureld­ar eru gott sem ár­leg­ur viðburður í Kali­forn­íu, en gróðurelda­tíma­bilið hef­ur ekki byrjað jafnilla í ára­tugi. 

Rík­is­stjóri Kali­forn­íu, Jerry Brown, hef­ur óskað eft­ir neyðaraðstoð al­rík­is­yf­ir­valda til að hindra yf­ir­vof­andi hörm­ung­ar og samþykkti Donald Trump Bandaríkjaforseti í gær að Kaliforníuríki verði veitt aðstoð vegna eldanna.  

Gróðureld­ar hafa þegar brennt um 1,68 millj­ón­ir hekt­ara lands í Banda­ríkj­un­um það sem af er þessu ári og er það langt yfir meðaltali síðustu 10 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert