Stórbruni í Gautaborg

Stórbruni hófst upp úr klukkan 20 í kvöld að íslenskum …
Stórbruni hófst upp úr klukkan 20 í kvöld að íslenskum tíma í miðbæ Gautaborgar. Kort/Google

Þykkur reykjarmökkur liggur nú yfir miðborg Gautaborgar í Svíþjóð eftir að eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði sem hýsir rækju- og laxvinnslufyrirtæki í Lundby-hverfinu þar í borginni. Sænska ríkisútvarpið SVT ræðir við Timmy Andersson, sem býr í um hundrað metra fjarlægð frá brunanum, og segist hann hafa heyrt minnst tíu sprengingar frá byggingunni en eldurinn hafi breiðst út á ævintýralegum hraða eftir að hann kom upp, laust eftir klukkan 22 í kvöld, 20 að íslenskum tíma.

Slökkviliðsmenn á staðnum segja líklegt að fjöldi gaskúta sé í byggingunni, sem skýri sprengingarnar, en um tíu slökkviliðsbifreiðar eru á svæðinu auk lögreglu og sjúkrabíla.

Sænska dagblaðið Aftonbladet segir frá því að lögregla hafi beitt hinu svokallaða VMA-viðvörunarkerfi (s. viktigt meddelande till allmänheten) til að koma þeim skilaboðum til allra íbúa á svæðinu að loka öllum dyrum og gluggum híbýla sinna og jafnvel slökkva á loftræstikerfum, þar sem þau eru, til að koma í veg fyrir að eitraður reykur berist inn á heimili eða í fyrirtæki. Þá er almenningur beðinn að halda sig fjarri brunanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert