Mikill meirihluti, eða 78%, Breta segir ríkisstjórn Bretlands undir forystu Theresu May forsætisráðherra standa illa að viðræðum um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (Brexit), samkvæmt nýrri könnun Sky-fréttastofunnar. Þetta er um 23 prósentustiga aukning óánægðra frá könnun fréttastofunnar í mars þegar 55% sögðu ríkisstjórnina standa illa að málinu. Aðeins 10% segja ríkisstjórnina standa vel að málinu, en 23% sögðu það sama í mars.
Þá segjast 74% óánægð með störf forsætisráðherrans á meðan 24% segjast ánægð með störf May. Í mars sögðust 59% óánægð, en 41% ánægð.
Helmingur svarenda vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um þann samning sem stendur til að gera við Evrópusambandið vegna Brexit, á meðan 40% vilja það ekki.
Áberandi er að talsverð óánægja er með fyrirhugað Brexit-samkomulag ríkisstjórnarinnar og segjast aðeins 13% styðja áform ríkisstjórnarinnar. 27% vilja ganga úr Evrópusambandinu án þess að sérstakur samningur verði gerður við Evrópusambandið.
Meðal þeirra sem segjast hafa greitt atkvæði með Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldin var um málið í júní 2016, segjast 51% frekar vilja engan samning við Evrópusambandið fram yfir samkomulag ríkisstjórnarinnar. 22% segjast styðja samkomulagið.
Kjósendur Íhaldsflokksins, flokks May, eru á sama máli en aðeins 21% styðja yfirlýstum áformum ríkisstjórnarinnar á meðan 44% þeirra segjast frekar vilja engan samning.
Boris Johnsons, þingmaður íhaldsflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, lýsti því yfir á breska þinginu nýverið að enn væri hægt að bjarga Brexit. Sagði hann Theresu May hafa stýrt málinu illa og skapað óþarfa óvissu.
Johnson sagði sig frá embætti utanríkisráðherra í kjölfar þess að kynnt var hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér framtíðarfyrirkomulag samskipta Bretlands og Evrópusambandsins við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Meðal umkvörtunarefna Johnson eru áform um að halda Bretlandi í sameiginlegu tollsvæði Evrópusambandsins.