Lögreglan í Rogaland á vesturströnd Noregs setti samstundis í gang umfangsmikla rannsókn og leit þegar lík 13 ára gamallar stúlku fannst skammt frá heimili hennar við Møllevegen í smábænum Varhaug í Suður-Rogaland á vesturströnd Noregs í nótt.
Vegna aðstæðna á vettvangi þykir andlát stúlkunnar hafa borið að með voveiflegum hætti og óskaði lögregla á staðnum þegar eftir aðstoð norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos.
„Helsta kenning okkar er sú að við stöndum frammi fyrir manndrápi,“ sagði Herdis Traa, lögmaður lögreglunnar, á blaðamannafundi í morgun sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá.
Traa segir þó að lögreglan haldi öðrum möguleikum einnig opnum. Málið kom upp þegar lögregla var stödd í Varhaug vegna þjófnaðarmáls upp úr miðnætti í nótt. Kom maður, sem reyndist vera faðir stúlkunnar, þá til lögreglumanna og tjáði þeim að dóttur hans væri saknað.
Leit að stúlkunni hófst þá þegar og klukkan 03:10 í nótt, 01:10 að íslenskum tíma, fannst lík hennar á eða við göngustíg nálægt brú.
Norska dagblaðið VG segir lögreglu ekki vilja greina frá hugsanlegum áverkum á líkinu en gefur upp að það hafi verið fullorðin manneskja sem þekkti hina látnu sem fann líkið og gerði viðvart. Victor Jensen hjá suðvesturumdæmi lögreglunnar segir tæknifólk nú vera að störfum á vettvangi og ítrekar það sem áður hefur verið gefið upp að málið sé rannsakað sem „alvarlegt atvik“ (n. alvorlig hendelse).
Lögreglan lýsir nú eftir vitnum og hefur sett upp sérstakt símanúmer sem þeir eru beðnir að hringja í sem telja sig hafa séð eða heyrt eitthvað sem tengja megi andláti stúlkunnar í nótt. Hafa þegar nokkrar ábendingar borist að sögn lögreglu.
Fréttir annarra norskra fjölmiðla af málinu: