Fyrstu kosningarnar án Mugabe

Langar raðir hafa myndast fyrir utan kjörstaði í Simbabve, en …
Langar raðir hafa myndast fyrir utan kjörstaði í Simbabve, en búist er við góðri kjörsókn. AFP

Kosningar fara fram í Simbabve í dag, þær fyrstu frá því landið hlaut sjálfstæði árið 1980 þar sem Robert Mugabe, fyrrverandi forseti landsins, er ekki í framboði. Mugabe var hrakinn frá völdum í fyrra eftir tæpa fjóra áratugi á valdastóli.

Talið er líklegt að slagurinn um forsetaembættið verði milli þeirra Emmerson Mnangagwa, leiðtoga stjórnarflokksins Zanu-PF, og Nelson Chamisa, leiðtoga stjórnarandstöðunnar.

Skoðanakannanir benda til þess að Mnangagwa hafi naumt forskot á Chamisa.

Zanu-PF var flokkur Mugabes, sem hefur tilkynnt að hann muni ekki kjósa Mnangagwa. Kallaði hann raunar eftir að flokkurinn yrði kosinn burt úr ríkisstjórn, en þing- og sveitarstjórnarkosningar fara einnig fram í landinu í dag.

„Ég vona að valið eða kosn­ing­arn­ar [...] muni ýta úr vegi stjórn hers­ins og koma aft­ur á fót stjórn­laga­legu rétt­mæti,“ sagði hinn 94 ára gamli Mugabe er hann kom fram opinberlega í gær, í fyrsta skipti frá því að hershöfðingjar neyddu hann til að segja af sér í nóvember í fyrra.

Búist er við góðri kjörsókn og er kosningaþátttaka yngra fólks talin einkar mikilvæg, en tæpur helmingur þeirra sem eru á kjörskrá eru undir 35 ára aldri.

Hundruð alþjóðlegra eftirlitsmanna eru nú í Simbabve til að fylgjast með framgangi kosninganna og til að tryggja að allt gangi vel fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert