Gæti tekið fimm daga að fá úrslitin

Kjörseðlum skellt á borðið til flokkunar.
Kjörseðlum skellt á borðið til flokkunar. AFP

Talning stendur nú yfir í Simbabve, þar sem forseta- og þingkosningar fóru fram í dag. Biðraðir voru við kjörstöðvar víða í landinu og talið er að yfir 75% þeirra 5,6 milljóna sem eru á kjörskrá hafi mætt og greitt atkvæði. Fimm daga gæti tekið að fá úrslit kosninganna staðfest.

Elmar Brok, aðalkosningaeftirlitsmaður Evrópusambandsins í Simbabve, segir við AFP-fréttaveituna að kosningaeftirlitsmenn muni skoða ákveðna þætti í framkvæmd kosninganna sem ekki hafi verið með felldu. Ekki sé vitað hvort um mynstur atburða hafi verið að ræða eða hvort skipulag á ákveðnum kjörstöðum hafi bara ekki verið eins og best væri á kosið.

Heilt yfir segir Brok að þátttaka hafi verið góð, sérstaklega á meðal ungs fólks og að kosningarnar hafi að mestu leyti farið friðsamlega fram, sem sé jákvætt.

Hvatti íbúa til að sýna biðlund

Forseti Simbabve, Emmerson Mnangagwa, sagði í dag á Twitter-síðu sinni að íbúar landsins hefðu kosið í anda gagnkvæmrar virðingar og friðar. Hann hvatti íbúa til þess að sýna þolinmæði, en BBC greinir frá því að það gæti tekið allt að fimm daga til að fá staðfest kosningaúrslit.

„Gleymum því ekki að alveg sama hvernig við kusum, erum við öll bræður og systur og þetta land tilheyrir okkur öllum,“ skrifaði forsetinn á Twitter-síðu sína síðdegis.

Ef enginn frambjóðendanna 23 í forsetakosningunum fær meira en 50% atkvæða upp úr kjörkössunum verða aðrar kosningar haldnar 8. september næstkomandi, á milli þeirra sem flest atkvæði fá.



Talning er hafin í Simbabve. Þessi mynd er tekin í …
Talning er hafin í Simbabve. Þessi mynd er tekin í leikskóla í höfuðborginni Harare síðdegis í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert