Fjórir liðsmenn rússneska andófshópsins Pussy Riot voru teknir höndum af lögreglu í Moskvu í dag er þeir fögnuðu því að vera lausir úr haldi, eftir að hafa setið af sér fimmtán daga dóm fyrir að hlaupa inn á völlinn í úrslitaleik HM í Rússlandi 15. júlí.
Fréttamaður AFP-fréttaveitunnar sá hvernig þremur þeirra, Veroniku Nikulshinu, Olgu Kurachvu og Olgu Pakhtusovu, var þröngvað inn í lögreglubíl skömmu eftir að þeim var sleppt út haldi. Blaðamönnum á vettvangi var ekki gefin nein útskýring á handtökunni.
Fjórði liðsmaður hópsins, Pyotr Verzilov, var sömuleiðis tekinn höndum um leið og honum var sleppt úr öðru fangelsi í dag.
Farið var með fjórmenningana á lögreglustöðina Lushniki og þar var þeim tjáð, samkvæmt því sem Verzilov segir á Twitter-síðu sinni, að þeim sé gefið að sök að brjóta lög um opinberar samkomur.
Verzilov sagði sömuleiðis að þeim hefði verið sagt að þeim yrði haldið í varðhaldi til morguns hið minnsta.