Reiðir ættingjar gengu út

Intan Maizura Othman ræðir við blaðamenn að loknum fundinum.
Intan Maizura Othman ræðir við blaðamenn að loknum fundinum. AFP

Engar nýjar vísbendingar er að finna í nýrri opinberri skýrslu um hvers vegna flugvélin MH370 hvarf sporlaust fyrir rúmum fjórum árum með 239 manns innanborðs.

Þetta segja ættingjar þeirra sem voru um borð í vél Malaysia Airlines eftir að fundur var haldinn þar sem skýrslan var kynnt.

Þeir höfðu vonast til þess að skýrslan myndi varpa nýju ljósi á það sem gerðist. Nítján manna hópur á vegum malasískra stjórnvalda stóð á bak við skýrsluna.

Sarah Nor, móðir Norliakmar Hamid sem var farþegi í vélinni, …
Sarah Nor, móðir Norliakmar Hamid sem var farþegi í vélinni, grætur á fundinum í morgun. AFP

Á fundinum var lýst í löngu máli hvarfi vélarinnar og leitinni sem fór fram í kjölfarið. Sumir ættingjar þeirra sem fórust með vélinni gengu út af fundinum, óánægðir með niðurstöðu skýrslunnar og hversu fá svör þeir fengu.

„Þetta olli mér miklum vonbrigðum,“ sagði Intan Maizura Othman en eiginmaður hennar var flugþjónn um borð í vélinni sem var á leiðinni frá Kuala Lumpur til Peking þegar hún hvarf í mars árið 2014.

„Ég er pirruð. Það er ekkert nýtt í skýrslunni. Þeir sem mættu á fundinn frá samgönguráðuneytinu gátu ekki gefið nein svör því þeir skrifuðu ekki skýrsluna.“

Skýrslan sem um ræðir.
Skýrslan sem um ræðir. AFP

G. Subramaniam, sem missti son sinn með vélinni, sagði að margir hafi verið reiðir vegna þeirra fáu svara sem fengust á fundinum.

Til stendur að birta skýrsluna opinberlega síðar í dag.

Leitað var að braki MH370 á 120 þúsund ferkílómetra svæði í Indlandshafi, án árangurs.

Þrír hlutar úr vélinni hafa fundist, allir á vesturströnd Indlandshafs, þar á meðal tveggja metra vængur.

Kok Soo Chon kynnir skýrsluna.
Kok Soo Chon kynnir skýrsluna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka