Segir Guð eyða áhrifum kosningasvindls

Emmerson Mnangagwa, forseti Simbabve, greiddi atkvæði við Sherwood-skóla í Kwekwe …
Emmerson Mnangagwa, forseti Simbabve, greiddi atkvæði við Sherwood-skóla í Kwekwe í morgun. Talið er að litlu muni muna milli hans og Nelson Chamisa. AFP

Kjörstaðir í Simbabve opnuðu í morgun og hafa þegar myndast miklar raðir við marga kjörstaði. Nelson Chamisa frambjóðandi segir raðir við kjörstaði sviðsettar til þess að hafa áhrif á kjósendur. 23 einstaklingar eru í framboði til forseta og talið er að litlu muni muna á fylgi sitjandi forseta, Emmerson Mnangagwa, og hans helsta keppinautar, Chamisa.

Gagnrýnir raðirnar

Nelson Chamisa hefur tekið til Twitter til þess að gagnrýna myndun langra raða við kjörstaði. Hann heldur því fram að með ásettu ráði sé reynt að hafa áhrif á kosningaþátttöku, sérstaklega í Harare, höfuðborg landsins. Hann telur þó að hann muni sigra þar sem hann hafi Guð á bak við sig, en kosningabarátta Chamisa hefur tekið mið af notkun samfélagsmiðla undir formerkjunum #Godisinit, eða Guð er með'essu.

Stjórnvöld hafa tilkynnt að allir sem standa í röð fyrir lokun kjörstaða fái að greiða atkvæði í kosningunum.

Fyrrverandi forseti Líberíu, Ellen Johnson-Sirleaf, er meðal þeirra sem eru í landinu að sinna kosningaeftirliti og hefur BBC  eftir henni að þessar löngu raðir sem hafa myndast við kjörstaði sýni að fólk sé áhugasamt um kosningarnar og að Simbabvebúar óttist ekki að valdi verði beitt.

Sextán ár eru frá því Simbabve samþykkti síðast að evrópskir og bandarískir fulltrúar framkvæmdu kosningaeftirlit í landinu.

Robert Mugabe, sem var hrakinn úr stóli forseta 2017 eftir tæp 40 ár við völd, mætti á kjörstað til þess að kjósa Chamisa. Hann hafði lýst þessari afstöðu sinni á blaðamannafundi í gær, en Mugabe er fyrrverandi flokksbróðir Mnangagwa.

Fátækt og óstöðugleiki

Árið 2007 var verðbólga 24.411% samkvæmt mælingum heimsbankans. Bankinn hefur ekki tölur fyrir árin 2008 og 2009, en samkvæmt seðlabanka Simbabve náði verðbólgan  í júlí 2008 231 milljón%.  Eftir að verðbólgan mældist 80 milljarðar% í nóvember sama ár gáfust hagfræðingar upp og hættu að mæla verðbólgu í landinu.

Mugabe hefur sífellt haldið því fram að efnahagslegar ógöngur landsins hafi verið afleiðing alþjóðlegs samsæris gegn landinu. Landið tók þó upp dollar þegar stjórnvöldum var ljóst að ekki var hægt að stöðva verðbólguna.

Um það bil 21% íbúa búa við sára fátækt og lifa á jafnvirði 200 íslenskra króna á dag eða minna. Þá upplifa 27% barna skerðingu á líkamlegum þroska vegna næringarskorts og er áætlaður lífaldur að meðaltali 61 ár.

Efnahagurinn hefur tekið að vaxa síðustu ár og hafa lífskjör batnað nokkuð, en helstu tveir frambjóðendur í kosningunum hafa boðað ýmsar umbætur er tengjast efnahagsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert