93 látnir eftir gróðureldana í Grikklandi

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, virðir fyrir sér eyðilegginguna sem fylgdi …
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, virðir fyrir sér eyðilegginguna sem fylgdi gróðureldunum. AFP

Hafnarlögreglan í Grikklandi hefur fundið tvö lík til viðbótar sem talin eru vera af fórnarlömbum gróðureldanna sem loguðu í og í nágrenni Aþenu í síðustu viku. Tala látinna er þar með komin upp í 93, en talið er að fólkið sem fannst hafi flúið út í sjóinn til að flýja eldana.

Átta lík hafa nú fundist í sjónum í nágrenni brunasvæðanna, en krafturinn í eldinum var slíkur að margir sem flúið höfðu út í sjó í fötunum sem þeir stóðu í urðu að bíða tímunum saman í vatninu eftir hjálp.

Það voru síðan fiskimenn úr nágrenninu, ekki strandgæslan, sem kom fólkinu fyrst til aðstoðar.

AFP-fréttastofan segir leit enn standa yfir að fólki sem saknað er eftir eldana.

Gróðureldarnir brut­ust út á mánu­dags­kvöldið í síðustu viku. Bíl­ar og hús brunnu til kaldra kola í þessum mann­skæðustu skóg­ar­eldum í nú­tíma­sögu Evr­ópu. Fólk reyndi að flýja eld­ana ým­ist á hlaup­um eða í bíl­um sín­um og 26 manns, sem ekki tókst að kom­ast und­an, fund­ust í faðmlög­um í húsi í strand­bæn­um Mati um 40 kíló­metr­a norðaust­ur af Aþenu. 

Brunarústir bíla í strandbænum Mati.
Brunarústir bíla í strandbænum Mati. AFP

Ekki tími til að flytja fólkið á brott

Stjórnarandstaðan í Grikklandi hefur sakað stjórnvöld um að hafa ekki sinnt sem skyldi svæðinu, sem reglulega verður fyrir gróðureldum. Þá hafi stjórnvöld reynt að fela hversu mikið manntjón hafi orðið í eldunum.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði á föstudag að hann tæki „pólitíska ábyrgð“ á hörmungunum en hafnaði alfarið ásökunum um að yfirvöld hefðu klúðrað málum varðandi viðbragð við eldunum.

Fullyrða stjórnvöld að vindhraðinn, um 120 km/klst., hafi verið slíkur að lítill tími hafi verið til að flytja fólk á brott.

Um 1.260 hektarar lands eru sagðir hafa brunnið í eldunum og hafa stjórnvöld boðið fórnarlömbum eldanna um 5.000 evra greiðslu í neyðaraðstoð. Ættingjar þeirra sem létust eiga að fá 10.000 evrur og ungmenni sem misstu foreldra sína munu fá mánaðarlegar greiðslur sem nema 1.000 evrum.

Efnt var til minningaathafnar um þá sem létust í Aþenu í gærkvöldi og söfnuðust nokkur hundruð manns saman á Syntagma-torginu í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka